„Árangur í umhverfismálum var einnig góður og ber þar hæst að losun flúoríðs minnkaði á milli ára og var sú minnsta í sögu álversins. Þennan árangur má meðal annars rekja til einfaldra en athyglisverðra endurbóta sem gerðar voru á þurrhreinsistöðvunum," segir Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi sem rekur álverið í Straumsvík, í nýrri sjálfbærnisskýrslu fyrir árið 2010. Þetta er í annað sinn sem ISAL gefur út slíka skýrslu að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.

flúormengun í Straumsvík
flúormengun í Straumsvík
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Rannveig segir í inngangsorðum skýrslunnar að ánægjulegt sé að sjá heildarlosun flúoríðs minnki í tonnum þrátt fyrir aukna framleiðslu. „Það er einnig ánægjulegt að losun PFC efna – sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir – var áfram ein sú lægsta sem þekkist innan áliðnaðarins á heimsvísu."

Í samantekt úr skýrslunni sem Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs álversins sendi fjölmiðlum, eru eftirfarandi punktar dregnir fram :

• Losun flúoríðs var sú minnsta í sögu álversins, og má m.a. rekja þann árangur til endurbóta á þurrhreinsistöðvum sem gerðar voru að frumkvæði starfsmanna og byggja á hugviti þeirra.

• Engin slys urðu í fyrstu þremur slysaflokkunum en 22 í fjórða flokki. Misstig voru þar algengustu tilvikin eða sex talsins.

• Útblástur brennisteinsdíoxíðs (SO2) var sá minnsti í sex ár. Mælingar á Hvaleyrarholti sýndu að magn SO2 í andrúmsloftinu fór hæst í um það bil 1/10 af heilsuverndarmörkum, bæði hvað varðar sólarhringsmeðaltal og klukkustundarmeðaltal.

• Álframleiðsla í kerskálum nam 189.965 tonnum, sem er met.

• Styrkir og styrktarsamningar fyrirtækisins námu 46 milljónum króna á árinu. Þar af var 13 milljónum veitt úr Samfélagssjóði, 6 milljónir runnu til barna- og unglingastarfs íþróttafélaganna í Hafnarfirði og 5,5 milljónir runnu til að hrinda af stað samstarfsverkefni um endurheimt votlendis í því skyni að draga úr losun CO2 úr jarðvegi. Allt framangreint eru viðvarandi verkefni hjá ISAL á næstu árum.

• Álverið keypti vörur og þjónustu af mörg hundruð íslenskum fyrirtækjum fyrir 6,8 milljarða króna á árinu, fyrir utan rafmagn. Reiknaður tekjuskattur (til greiðslu á þessu ári) nam 1,7 milljörðum og orkuskattur um 350 milljónum.

• Framkvæmdir hófust á árinu við stærsta fjárfestingarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi frá hruni. Útgjöld álversins á Íslandi vegna verkefnisins námu 3,3 milljörðum króna á árinu og í árslok unnu á þriðja hundrað manns við verkefnið.

• Kvartanir frá samfélaginu voru sjö, en tvær árið áður. Aukningin skýrist einkum af hávaða vegna bilunar í hljóðdeyfi löndunarbúnaðar, sem olli miklu ónæði í nágrannabyggðum um skeið.