Skjámynd ehf hefur gerst umboðsaðili á Íslandi fyrir ísraelska fyrirtækið CompuLab sem framleiðir minnstu PC-tölvu í heimi. PC-tölvan sem ber nafnið fit-PC2 er fullkomin PC-tölva sem hentar jafnt fyrir heimilið, skrifstofuna eða skólann. Stærð tölvunnar er einugins 10,1x11,5x2,5 cm og hún vegur aðeins 0,37 kg. eins og segir í tilkynningu.

Samt er vinnslugeta hennar sambærileg við fullvaxna PC-tölvu, þ.e. vinnsluhraðinn er 1,6MHz, innra minni er 1GB og hún er með 160GB hörðum diski. Engin kælivifta er í tölvunni og hún gengur því algerlega hljóðlaus.

Tölvan vinnur á 12 voltum og er því heppileg til notkunar í bíla, eða báta, en 12 volta aflgjafi fylgir henni. Rafmagnsnotkun í fullri keyrslu er einungis 8 wött. Framleiðandi tölvunnar fullyrðir að engin tölva á markaðnum þoli betur titring eða högg, sem gerir hana hæfari til að vinna í farartækjum en aðrar tölvur. Fit-PC2 er fáanleg bæði með Linux eða Windows stýrikerfinu. Tölvan er til sölu á vefsíðu Skjámyndar, www.skjamynd.is , og er verð hennar á bilinu 68.000 – 88.000 kr. eftir mismunandi útfærslum.