Velta á hlutabréfamarkaði í júlí nam 51 milljarði króna. Í júlí í fyrra nam veltan 528 milljörðum króna, en þá var um metmánuð að ræða.

Samdráttur milli ára er því um 90%.

„Þó ber að hafa í huga að júlímánuður 2007 var óvenjulegur fyrir þær sakir að viðskipti vegna yfirtökunnar á Actavis gengu þá í gegn en markaðsverðmæti félagsins var um 290 milljarðar króna Þannig eru veltutölur sem sáust í síðasta mánuði ekkert einsdæmi fyrir þennan árstíma og lýsa minni umsvifum yfir sumarleyfistímann. Í sama mánuði fyrir tveimur árum nam veltan aðeins tæpum 57 milljörðum sem var langdaprasti mánuður ársins. Heildarveltan í nýliðnum júlí er þó alltént sú minnsta sem sést hefur síðan í maí árið 2005 eða í rúm þrjú ár,“ segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Heildarvelta á hlutabréfamarkaði hefur verið 905 milljarðar króna fyrstu sjö mánuði þessa árs. Fyrstu sjö mánuði ársins 2007 nam veltan 1.972 milljörðum.

Yfirtakan á Actavis á síðasta ári skýrir þennan mun að hluta en minnkandi umsvif skýrast þó að mestu af þeirri verðmætarýrnun sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði. Markaðsverðmæti skráðra hlutabréfa hafði í lok júlí fallið um 2.076 milljarða milli ára, úr 3.638 milljörðum í 1.562 milljarða.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.