Verðbólga hefur ekki verið minni í Bandaríkjunum eða á evrusvæðinu í langan tíma. Samkvæmt frétt BBC mældist verðbólga á evrusvæðinu í apríl 1,2% og hefur hún ekki verið minni í þrjú ár. Tvö ár eru síðan verðbólga var minni í Bandaríkjunum en í apríl þegar hún mældist 1,1%. Bæði í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu eru seðlabankar með 2% verðbólgumarkmið.

Í báðum tilvikum ræður lækkandi olíuverð mestu um minnkandi verðbólgu, en verð á olíufatinu hefur lækkað úr 120 Bandaríkjadölum í mars í 93 dali nú. Minnkandi eftirspurn á báðum hagsvæðunum lék þó líka hlutverk í minnkun verðbólgunnar.