*

föstudagur, 3. júlí 2020
Innlent 26. nóvember 2019 14:48

Minnsti afgangurinn frá árinu 2010

Afgangur hefur verið á vöru- og þjónustuviðskiptum frá 2014 vegna uppgangs ferðaþjónustu en dregst nú saman um 27%.

Ritstjórn
Ferðafólk á leið úr landi á Keflavíkurflugvelli.
Haraldur Guðjónsson

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum Íslands við útlönd nam 55,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi sem er minnsti afgangur sem verið hefur á tímabilinu frá árinu 2010 að því er Landsbankinn hefur tekið saman í nýrri Hagsjá.

Vöru- og þjónustujöfnuðurinn dróst saman um 20,3 milljarða króna frá sama tímabili í fyrra sem nemur tæplega 27% samdrætti. Árið 2010 nam vöru- og þjónustujöfnuðurinn 53,3 milljörðum króna, en það var áður en uppsveiflan í ferðaþjónustu hófst.

Frá árinu 2014 hefur afgangurinn skýrst af miklum afgangi í þjónustuviðskiptum vegna uppgangs í ferðaþjónustu, og nam hann 101,3 milljörðum króna nú. Hann dróst hins vegar saman um 22,1 milljarð króna, eða 17,9%.

Útflutningur vöru og þjónustu dróst í heildina saman um 6,1%, í 374 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, en innflutningurinn dróst saman um 1,2%, og nam 318,5 milljörðum króna.

Stikkorð: Landsbankinn Ferðamenn Hagsjá Ísland