*

laugardagur, 5. desember 2020
Innlent 23. febrúar 2019 12:04

Minnsti hagnaður bankanna frá 2011

Hagnaður viðskiptabankanna þriggja hefur einungis einu sinni verið lægri frá endurreisn þeirra eftir hrun.

Ingvar Haraldsson
vb.is

Hagnaður viðskiptabankanna þriggja hefur einungis einu sinni verið lægri frá endurreisn þeirra eftir hrun. Heildarhagnaður Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans nam 38 milljörðum króna, eða sem samsvarar um 103 milljónum króna á dag. Hagnaðurinn hefur meira en helmingast frá árinu 2015 þegar hann nam yfir 100 milljörðum króna, sem samsvarar tæplega 300 milljónum króna á dag.

Viðbúið var að hagnaður bankanna myndi fara lækkandi, þar sem hann hefur litast af eftirmálum bankahrunsins, meðal annars af eignasölu og hækkun á verðmæti lánasafns bankanna. Arðsemi allra bankanna er undir þeim markmiðum sem þeir hafa sjálfir sett sér. Mestur var hagnaður Landsbankans, eða 19,3 milljarðar króna miðað við 19,8 milljarða árið 2017. Þá nam arðsemi eigin fjár Landsbankans 8,2% og er óbreytt milli ára. Íslandsbanki hagnaðist um 10,6 milljarða króna í fyrra, sem er 2,6 milljörðum króna minna en fyrir ári. Þá var arðsemi eigin fjár 6,1%, en var 7,5% fyrir ári. Þetta er bæði minnsti hagnaður og minnsta arðsemi hjá bankanum frá árinu 2011. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi Íslandsbanka segir að áskorun verði að ná arðsemismarkmiði bankans um 8-10% arðsemi af reglulegri starfsemi enda sé hagkerfið að kólna. „Eftir því sem hægist á vexti í íslensku efnahagslífi þá mun draga úr útlánavexti og því mikil áskorun fyrir stjórnendur að auka arðsemi,“ segir í skýrslu stjórnar Íslandsbanka. Hagvöxtur var 6,3% á fyrri hluta síðasta árs en Seðlabankinn spáir 1,8% hagvexti á þessu ári. Fjármálastöðugleikaráð áætlaði að útlánavöxtur lánakerfisins hefði verið um 10% á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: bankarnir