Stjórnvöld í Þýskalandi búast við að hagvöxtur í ár verði sá minnsti í sex ár. Efnahagsráðuneyti landsins lækkaði hagvaxtarspá ársins um 0,5 prósentustig í 1,5% í dag. Óvissa tengd Brexit, hægari heimshagvöxtur og erfiðleikar í þýskri iðnframleiðslu eru sagðir eiga þátt í minnkandi hagvexti. Bloomberg greinir frá.

Ef marka má hagspár verður hagvöxtur minnstur í Þýskalandi af ríkjum evrusvæðisins að undanskilinni Ítalíu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkaði hagvaxtarspá sína fyrir heimshagkerfið í síðustu viku og er hún sú lægsta frá hruninu 2008. Kallað er eftir því að þýska ríkið nýti það svigrúm sem sé til staðar til aukinna ríkisútgjalda. Peter Altmaier, efnahagsmálaráðherra Þýskalands, segir að verið sé að fjárfesta metfjárhæðum í innviðum, menntun og rannsóknum.