Minnstur samdráttur varð í farþegafjölda Icelandair í marsmánuði af stærstu flugfélögum Norðurlandanna samkvæmt frétt Túrista. Norrænu flugfélögun SAS, Finnair, Norwegian og Icelandair hafa nú öll birt farþegatölur fyrir mánuðinn.

Eins og greint var frá í gær flutti Icelandair um 123 þúsund farþega í mars og voru þeir um 54% færri en í sama mánuði í fyrra vegna áhrifa kórónuveirunnar. Þrátt fyrir að samdrátturinn hafi verið minnstur hjá Icelandair var hann þó mjög svipaður á milli félaga. Farþegum Norwegian fækkaði mest eða um 61%, farþegum SAS um 60% og hjá Finnair nam fækkunin 56%.

Best sætanýting í mánuðinu var hjá Norwegian eða 72% á meðan hún var 62% hjá Icelandair, 58% hjá Finnair og 49% hjá SAS.