Bandaríska fjárfestingafélagið Miri Capital Management er komið með 1,5% hlut í Icelandair. Félagið hefur á síðastliðnum vikum keypt hluti í flugfélaginu fyrir rúmlega einn milljarð króna. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Í fréttinni segir jafnframt að nafn Miri Capital hafi ekki komið fyrir á lista yfir 20 stærstu hluthafa Icelandair sem birtur var í síðustu viku, en að félagið verði meðal 10 stærstu hluthafa á næsta lista miðað við fyrrnefnd viðskipti.

Samkvæmt hluthafalistanum frá því í síðustu viku er bandaríska fjárfestingafélagið Bain Capital Credit með langstærstan hlut í flugfélaginu, eða 17,2% hlut.

Túristi bendir á að Miri Capital hafi átt stóran hlut í Origo fyrir faraldur. Þá sé mynd af Reykjavík notuð sem bakgrunnur á heimasíðu sjóðsins.