Reza Mirza hefur verið ráðinn forstjóri yfir N-Ameríkudeild vatnsfyrirtækisins Icelandic Glacial. Hann tekur við starfinu af Kristjáni Ólafsson, öðrum stofnanda fyrirtækisins og syni Jóns Ólafssonar, sem um árabil var kenndur við Skífuna.

Fram kemur í tilkynningu að Reza mun verða yfir sölu-, markaðsmálum og dreifingu Icelandic Glacial í Bandaríkjunum. Hann er reynslubolti í bandarískum drykkjavörugeira, hefur m.a. stýri Activate Drinks og verið framkvæmdastjóri hjá Nestlé Waters og Colgate Palmolive.

Í tilkynningunni segir að Kristján muni ekki hætta afskiptum af daglegum rekstri en ætli að einbeita sér að nýjum vörum og markaðssetningu á nýjum mörkuðum.

Vatni Icelandic Glacial er tappað á flöskur í lind fyrirtækisins í landi Hlíðarenda við Þorlákshöfn. Þaðan er því dreift víða um heim. Jón Ólafsson og Kristján eru stærstu hluthafar fyrirtækisins ásamt bandaríska drykkjavörurisanum Anheuser Busch.