*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 25. október 2020 14:05

Misdökkar þjóðhagsspár

Þjóðhagsspár sem gefnar hafa verið út nú í haust, mála dökka mynd af horfum í efnahagslífinu, en þó misdökkar.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Það hefur vart farið framhjá landsmönnum að íslenskt efnahagslíf gengur í gegnum djúpa lægð þessa stundina, vegna áhrifa kórónuveirunnar. Þjóðhagsspár sem hafa verið birtar nú á haustdögum endurspegla hve alvarlegt ástandið í efnahagslífi þjóðarinnar er. Á þriðjudag birti Landsbankinn þjóðhagsspá sína fyrir tímabilið 2020 til 2023 og um síðustu mánaðamót birtu Íslandsbanki og Hagstofa Íslands sínar spár. Spá Hagstofunnar nær yfir sama tímabil og spá Landsbankans en spá Íslandsbanka er út árið 2022. Þá kynnti Seðlabanki Íslands sína spá til sögunnar í lok ágúst, en hún nær líkt og spá Íslandsbanka yfir tímabilið 2020 til 2022.

Hagfræðideild Landsbankans segir í hagspá sinni að horfur í efnahagsmálum hafi versnað verulega frá því í ágúst og reiknar Hagfræðideild bankans með að efnahagslífið muni ekki taka almennilega við sér fyrr en árið 2023. Reiknar bankinn með að landsframleiðsla dragist saman um 8,5% á þessu ári. Efnahagsbatinn hefjist á seinni helmingi næsta árs, samhliða því sem faraldurinn gengur niður í kjölfar þróunar bóluefnis og myndunar hjarðónæmis hér á landi, sem og í helstu viðskiptalöndum Íslands. Íslandsbanki tekur í svipaðan streng og spáir 8,6% samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári en segir að áhrif faraldursins séu þó ívið mildari en gert var ráð fyrir í síðustu spá bankans í maí sl., er spáð var 9,2% samdrætti. Hagstofan spáir 7,6% samdrætti í landsframleiðslu í ár og bendir á að um sé að ræða einn mesta samdrátt á síðustu 100 árum. Þá gerir Seðlabanki Íslands ráð fyrir 7,1% samdrætti, en í öllum spám fyrrnefndra greiningaraðila er lögð áhersla á hve mikil óvissan sé og þróun efnahagsmála muni fyrst og fremst ráðast af framvindu veirunnar.

Spár ríkisbankanna, Hagstofu og Seðlabanka gera allar ráð fyrir áþekkum hagvexti á næsta ári, eða á bilinu 3,1% til 3,9%. Þegar horft er til ársins 2022 eykst bilið þó milli spánna, en Hagstofan, sem spáir 3,9% hagvexti á næsta ári, reiknar með 3,1% hagvexti árið 2022. Seðlabankinn gerir ráð fyrir 3,4% hagvexti, Íslandsbanki 4,7% hagvexti og Landsbankinn 5% hagvexti árið 2022. Hagstofa reiknar loks með 2,6% hagvexti árið 2023 og Landsbankinn 4,9% hagvexti. Líkt og fyrr segir ná spár Íslandsbanka og Seðlabankans ekki yfir árið 2023.

Atvinnuleysi í sögulegu hámarki

Veirufaraldurinn hefur orðið til þess að atvinnuleysi er nú í sögulegu hámarki og á það væntanlega bara eftir að aukast áður en árið rennur sitt skeið. Í byrjun árs voru um 10 þúsund manns atvinnulausir samkvæmt Vinnumarkaðsskýrslu ASÍ sem birt var í byrjun mánaðar. Samtök atvinnulífsins hafa spáð því að allt að 30 þúsund manns verði atvinnulausir í lok yfirstandandi árs. Þá gera spár Vinnumálastofnunar ráð fyrir að á bilinu 25 til 26 þúsund manns verði atvinnulausir um áramót.

Atvinnuleysið er að mestu bundið við ferðaþjónustutengdar greinar, en líkt og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, benti nýlega á í viðtali við Viðskiptablaðið, er fjarri lagi að um sé að ræða ferðaþjónustukreppu þar sem atvinnuleysistölur eftir mismunandi starfsgreinum sýni að mjög vaxandi atvinnuleysi sé í öllum greinum einkageirans. Því verður að teljast óhætt að fullyrða að staðan á íslenskum vinnumarkaði sé grafalvarleg.

Í þjóðhagsspá Landsbankans segir að atvinnuleysi verði að meðaltali um 7,8% á árinu, það aukist í 8,4% árið 2021 en lækki svo í 5,8% árið 2022 og 4,8% árið 2023. Íslandsbanki tekur í sama streng hvað varðar meðaltalsatvinnuleysi á þessu ári, en atvinnuleysisspá bankans fyrir árin þar á eftir er nokkuð bjartsýnni en spá Landsbankans. Þannig reiknar Íslandsbanki með 7,6% atvinnuleysi á næsta ári og 4,7% árið 2022. Hagstofan býst, líkt og bankarnir, við að atvinnuleysi verði að meðaltali 7,8% í ár og gerir ráð fyrir að atvinnuleysi nái hámarki í vetur. Atvinnuleysi verði áfram hátt á næsta ári, eða 6,8% að meðaltali, fari svo lækkandi eftir það og verði 6,2% 2022 og 5,4% 2023. Loks reiknar Seðlabankinn með 7,2% atvinnuleysi að meðaltali á þessu ári, 7,9% á því næsta og 6,3% árið 2022.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér