Verðþróun hlutabréfa á síðasta ári var nokkuð misjöfn meðal atvinnugreina hér á landi. Tækni- og fjarskiptafyrirtæki nutu almennt mestra hækkana á árinu. Þannig hækkaði hlutabréfaverð Origo um 50,9% á árinu og vísitala fjarskiptafyrirtækja (OMXI Telecommunications), sem inniheldur Símann og Sýn, hækkaði um 44,6%.

Aðrar atvinnugreinar sem nutu veglegrar hækkunar á markaði á síðasta ári eru smásölufyrirtæki, fyrirtæki tengd sjávarútvegi og fjármálafyrirtæki.

Hlutabréfagengi smásölufyrirtækjanna tveggja, Haga og Festi, hækkaði um á fjórða tug prósenta, en gengi Haga hækkaði um 37,2% á árinu og gengi Festi um 33,2%.

Fyrirtæki tengd sjávarútvegi áttu góðu gengi að fagna á markaði á árinu, en gengi flutningafyrirtækisins Eimskips hækkaði um 36,1% á árinu, gengi Marel um 28,3%, gengi Brims um 28,1% og gengi Iceland Seafood International um 26,9%.

Þá hækkaði vísitala fjármálafyrirtækja (OMXI Financials), sem inniheldur Kviku banka, Arion banka og tryggingarfélögin VÍS og Sjóvá, um 24,9% á síðasta ári.

Minna var um dýrðir á markaði í öðrum greinum. Bréf Skeljungs hækkuðu um 8,7% á síðasta ári, nokkru minna en úrvalsvísitalan. Af fasteignafélögunum hækkuðu bréf í Eik mest á síðasta ári, um 12,6%, á meðan bréf í Regin hækkuðu um 3,1% og bréf í Reitum lækkuðu um 2%.

Þá kemur fæstum á óvart, í ljósi aðstæðna, að Icelandair hafi rekið lestina á markaði, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 78,3% árið 2020.

41% veltuaukning á fyrsta fjórðungi

Árið 2020 var blómlegt á hlutabréfamarkaði, bæði hér á landi og erlendis. Úrvalsvísitala hlutabréfa, OMXI 10, hækkaði um 20,48% á síðasta ári og nam velta með hlutabréf í kauphöll tæpum 602 milljörðum króna á árinu.

Veltan lækkaði lítillega frá fyrra ári, eða um 1,6%, en að líkindum er neikvæðum áhrifum faraldursins um að kenna þar sem umsvif minnkuðu verulega á vor- og sumarmánuðum en jukust almennt aðra mánuði. Þannig jókst velta milli ára um 41,2% á fyrsta ársfjórðungi og um 22,3% á fjórða ársfjórðungi en dróst saman um 35,9% frá apríl til september.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .