Breska lögmannastofan Mishcon de Reya hvatti íslensk stjórnvöld til að höfða má gegn breska fjármálaeftirlitinu (FSA) vegna falls Kaupþings. Þessi skoðun lögfræðistofunnar var kynnt bæði samninganefnd Íslands sem og fulltrúum fjármálaráðuneytisins.

Hins vegar lét Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands í Icesave málinu taka álit Mishcon de Reya út úr kynningu fyrir utanríkisráðuneytið. Þetta kemur fram í bréfi frá Mike Stubbs, eins eiganda Mishcon de Reya sem hann ritaði fjárlaganefnd Alþingis í dag, þriðjudag.

Eins og fram kom fyrir miðnætti olli birting bréfsins nokkru uppnámi á Alþingi í kvöld. Þannig var þingfundi frestað á meðan fjárlaganefnd hittist á óformlegum fundi til að ræða málið.

Í stuttu máli þá lagði Mishcon de Reya til við samninganefnd Íslands að íslensk stjórnvöld myndu hóta málssókn á hendur breska fjármálaeftirlitinu vegna aðgerða gegn Kaupþing. Það var, og er, álit stofunnar að slík málsókn yrði breskum yfirvöldum pólitískt viðkvæm. Þannig hefðu breskir dómstólar oft dæmt breska ríkinu í óhag auk þess sem það myndi styrkja samningsstöðu Íslands að hóta málssókn.

Mishcon de Reya kynnti sem fyrr segir þessa skoðun sína fyrir samninganefndinni og fjármálaráðuneytinu. Ekki kemur fram í erindi stofunnar hvaða fulltrúum ráðuneytisins.

Hins vegar heldur Mike Stubbs því fram að Svavar Gestsson, formaður samninganefndarinnar, hafi látið taka út þennan lið fyrir kynningu stofunnar fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra  en stofan kynnti honum álit sitt þann 31. mars s.l. áður en hann hitti David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands á fundi.

„Þar sem formaður samninganefndarinnar var okkar viðskiptavinur var það að sjálfsögðu undir honum komið hvernig kynningin yrði sett saman,“ segir í lauslegri þýðingu úr bréfinu sem sent var þingmönnum í dag (þriðjudag). Þá kemur jafnframt fram að starfsmenn Mishcon de Reya hefðu verið sammála Svavari um að höndla bæri þetta álit með viðkvæmum hætti.

Stubbs segir í bréfi sínu að hann hafi ekki vitneskju um hvort íslenska samninganefndin hefði nýtt sér ráð stofunnar, þ.e. að hóta málssókn. Hafi hún ekki gert það, eða ætli sér ekki að gera það, sé ekkert sem mæli á móti því að gera þá skoðun stofunnar opinbera að réttast væri að hóta málssókn. Að sama skapi hvetur Stubbs til þess að álit stofunnar séu höndluð sem trúnaðarmál ætli samninganefndin sér að reyna að semja upp á nýtt.