Misheppnuð tilraun ráðamanna í Norður-Kóreu við að skjóta eldflaug á loft sem koma átti gervihnetti á sporbaug um jörðu kostnaði ríkið jafnvirði 840 milljóna Bandaríkjadala, um 108 milljarða íslenskra króna. Tilraunin var fjármögnuð með útflutningsverðmæti kola frá Norður-Kóreu á síðasta ári. Eldflaugin brotnaði í sundur skömmu eftir að henni var skotið á loft í nótt og féll hún í snjóinn undan ströndum Kóreuskaga.

Áform stjórnvalda hafa vakið mikla illúð í garð þeirra, ekki síst handan landamæranna í Suður-Kóreu. Þar er því haldið fram að að eldflaugaskotið hafi verið tilraun til að þróa langdræg kjarnavopn. Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa vísað því á bug og sagt ætlunina að koma gervihnetti á loft. Skotið mun vera liður í áformum stjórnvalda að tryggja goðsagnakennda ímynd Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, föður hans og afa í sessi.

Hvað sem því líður þá fór eldflaugaskotið út um þúfur. Breska dagblaðið Telegraph bendir á að þetta hafi reynst dýrkeypta tilraun. Fyrir fjárhæðina sem fór í eldflaugaskotið hefði mátt kaupa mikið magn matvæla fyrir íbúa Norður-Kóreu sem hafi þjást af matarskorti svo árum skipti.

Tóku eldflaugaskot fram yfir mat

Samkvæmt gögnum sem Telegraph hefur undir höndum var tilraunin fjármögnuð með útflutningsverðmæti kola sem í fyrra skiluðu jafnvirði 1,14 milljörðum dala í ríkisskassann. Fyrir upphæðina hafi mátt kaupa 2,5 milljón tonn af korni og 1,4 milljón tonn af hrísgrjónum.

Sveltandi börn í Norður Kóreu.
Sveltandi börn í Norður Kóreu.

Sameinuðu þjóðarinnar ýttu úr vör áætlun í apríl í fyrra sem áætlað er að seðja hungur 3,5 milljónum íbúa Norður-Kóreu sem búið hafa við kröpp kjör um árabil. Þetta er ein umsvifamesta matvælaaðstoð sem veitt hefur verið landinu frá hungursneyðinni sem þar geisaði fyrir um tuttugu árum síðan. Talið er að 3,5 milljónir manna, um 16% þjóðarinnar, hafi þá dáið hungurdauða eða veikindum tengdum matarskorti.

Telegraph bendir á að neyðin sé slík í Norður-Kóreu nú um stundir að hið opinbera skammtar landsmönnum 150 grömmum af korni á dag. Það er rúmlega helmingi minna en þeir fá í öðrum löndum sem þurfa á matvælaaðstoð að halda.

Samkvæmt gögnum Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna þjáist eitt af hverjum þremur börnum í Norður-Kóreu af vannæringu og fjórðungur af barnshafandi konum og konum með börn á brjósti.

Kim Jong Un
Kim Jong Un
Kim Jong Ung, leiðtogi Norður-Kóreu, ásamt föður sínum, Kim Jong Il, sem lést seint á síðasta ári. Lítið var vitað um Kim Jong Un þegar hann tók við. Hann mun fæddur annað hvort í janúar árið 1983 eða 1984 og því annað hvort 28 ára eða 29 ára.