Frederic Mishkin, sem situr í bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna, hefur sagt upp störfum fyrir bankann og mun hverfa aftur til starfa við Columbiaháskóla. Bloomberg segir frá þessu.

Mishkin er sem stendur í leyfi frá störfum sínum við háskólann. Hann mun formlega hætta hjá seðlabankanum 31. ágúst næstkomandi, og síðastu opinberu störf hans fyrir bankann er aðkoma að stýrivaxtaákvörðun þann 5.ágúst.

Við brotthvarf Mishkin eru þrjú tóm sæti í sjö manna bankastjórn. Afleiðingin er sú að nýkjörinn forseti Bandaríkjanna mun hafa talsvert svigrúm til að hafa áhrif á peningastefnuna þar í landi, en forsetinn tilnefnir menn í bankastjórnina.