Viðskiptaráð Íslands stendur, í samstarfi við Dansk-íslenska verslunarráðið, fyrir fundi í Kaupmannahöfn næstkomandi föstudag, 23. júní, þar sem hagfræðingarnir Frederic Mishkin og Tryggvi Þór Herbertsson munu kynna skýrsluna Efnahagslegur stöðugleiki á Íslandi fyrir dönskum fjölmiðlum, fjárfestum greiningaraðilum og áhugamönnum.

Skýrslan sem unnin var að beiðni Viðskiptaráðs var fyrst kynnt í New York þann þriðja maí síðastliðinn en hefur einnig verið kynnt á Íslandi og London. Skýrslunni var ætlað að vera hlutlaus rödd inn í þá umræðu sem átt hefur sér stað um íslenskt efnahagslíf að undanförnu. Skýrslan er enginn hvítþvottur en aftekur þó að hér sé yfirvofandi fjármálakreppa líkt og einhverjir erlendir greiningaraðilar hafa látið í veðri vaka.

Skýrslan hefur hlotið mikla athygli meðal erlendra greiningaraðila og hefur vafalaust átt sinn þátt í að talsverður viðsnúningur hefur orðið í umræðunni. Mikill áhugi hefur verið á íslensku viðskiptalífi í Dannmörku og því má búast við fjörugum fundi en auk formlegrar kynningar Mishkin munu fara fram umræður og fyrirspurnir. Ekki er langt síðan að Danske Bank gaf út frekar svarta skýrslu um efnahagshorfur á Íslandi en í kjölfarið komu hagfræðingar bankans, þeir Lars Christenssen og Carsten Valgren, til íslands og kynntu niðurstöður sínar á fjölmennum hádegisfundi.

Ljóst er að niðurstöður þeirra eru ansi ólíkar og því verður eflaust athyglisvert þegar Miskin mætir Dönunum í Kaupmannahöfn.