Í svonefndri Mishkin-skýrslu sem gerð var fyrir Viðskiptaráð í upphafi árs 2006 var meðal annars lagt til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið (FME) en sem kunnugt er eru miklar vangaveltur um slíkt í gangi.

Skýrsluhöfundarnir Tryggvi Þór Herbertsson og Frederic S. Mishkin, lögðu til að Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabankanum til að auka skilvirkni eftirlits með fjármálastofnunum.

Í kjölfarið gaf Seðlabankinn út eigin skýrslu og á blaðamannafundi 4. maí 2006 sagði Davíð Oddsson að þrátt fyrir að skýrslurnar tvær væru ólíkar að efnistökum þá væri engu að síður ákveðinn samhljómur í niðurstöðum.

Davíð sagði við það tækifæri að engin endanleg afstaða hafi verið tekin innan bankans um sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans en hinsvegar væri það staðreynd að bankarnir væru alltaf að stækka á meðan þær stofnanir sem hafa það hlutverk að veita þeim eftirlit og aðhald stæðu í stað.