Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi í næstu viku. Í markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að líklegt sé að peningastefnunefndin líti til verðbólguhorfa og verðbólguvæntinga við mat á raunstýrivöxtum. Telja þau að Seðlabankinn víki ekki verulega frá fyrri spá sinni að því leyti að verðbólga fari hækkandi í tengslum við skuldaleiðréttingaraðgerðir stjórnvalda.

Greining Íslandsbanka telur hins vegar að stýrivextir verði lækkaðir um 0,25%. Greiningin telur helstu rökin fyrir lækkun vera að verðbólga er undir verðbólgumarkmiði, verðbólguhorfur munu væntanlega batna samkvæmt nýrri spá, gengi krónunnar hefur verið stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun og að kjarasamningum hefur verið lent í samræmi við verðbólgumarkmið.