Samdráttur var á þróunarmörkuðum í janúarmánuði á meðan vísitölur helstu hlutabréfamarkaða heims hækkuðu að meðaltali 1.20%. Samkvæmt úttekt matsfyrirtækisins Standard & Poors á frammistöðu hlutabréfamarkaða um heim allan, World By Numbers, lækkuðu vísitölur á þróunarmörkuðum að meðaltali um 0.11%. Þrátt fyrir betri frammistöðu á þróaðri mörkuðum hefur frammistaða þróunarmarkaða verið betri að jafnaði hvort sem er horft er til þriggja mánaða eða síðastliðnu tólf mánaða.

Í janúar hækkaði tuttugu og einn af þeim tuttugu og sjö hlutabréfamörkuðum heimsins sem Standard & Poors skilgreinir sem þróaða markaði að meðaltali um 3.27%. Hlutabréfamarkaðir á Írlandi og í Suður-Kóreu eru helstu útlagarnir en vísitölur á þeim mörkuðum lækkuðu um 4.09% annarsvegar og 5.96% hins vegar. Gengi manna var einnig misjafnt á þróunarmörkuðunum. Á fimmtán af þeim tuttugu og sex þróunarmörkuðum sem úttekt Standard & Poors nær til hækkuðu hlutabréfavísitölur í síðasta mánuði. Hækkanir voru mestar í Nígeríu en markaðurinn fór upp fimmtung í mánuðinum og í Pakistan en þar hækkuðu vísitölur um 14.42%. Lækkanir voru mestar í Venesúela en markaðurinn lækkaði um 33.95% en þjóðnýtingaráformum Hugo Chavez forseta er að kenna um það hrun.

Af vísitölum einstakra geira stóð iðnaðargeirinn sig best og hækkaði að meðaltali um 2.72% á meðan orkufyrirtæki tóku mesta skellinn vegna óvissu um þróun olíu- og gasverðs á alþjóðamarkaði.