*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 18. maí 2019 12:01

Misjöfn afstaða til fækkunar bensínstöðva

Fækkunin leggst misvel í forsvarsmenn þriggja stærstu olíufélaga landsins. Sammála um að tímarammi borgarinnar sé knappur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Undir lok síðustu viku var markmið um að bensínstöðvum í Reykjavík fækki um helming á næstu sex árum eða fyrir árið 2025, samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í borgarráði. Í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar vegna málsins kemur fram að þetta sé í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur fyrir árin 2010-2030 og Loftlagsstefnu borgarinnar frá árinu 2016. Í Loftlagsstefnunni komi fram að stefnt sé að því að dælum fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna fækki um 50% til ársins 2030 og þær verði að mestu horfnar árið 2040. Borgarráð hafi ákveðið að ganga skrefi lengra og færa markmið fram um fimm ár eða til ársins 2025.

Fækkunin skerði þjónustu við borgarbúa

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, telur ofangreint markmið um fækkun bensínstöðva vera fullbratta nálgun á stórt mál.

„Við áttum fund með fulltrúum Reykjavíkurborgar í janúar sl. þar sem kynnt var fyrir okkur að þessi umræða væri að fara í gang hjá borginni og að haft yrði samráð við hluthafandi - sem sagt olíufélögin. Það kom okkur því mjög á óvart að það hafi verið tilbúið aðgerðaplan aðeins nokkrum mánuðum síðar um fækkun bensínstöðva um helming í Reykjavík. Auk þess þykir mér þessi tímarammi óraunhæfur.

Það eru yfir 300.000 ökutæki í landinu sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og stærsti hluti þeirra er á höfuðborgarsvæðinu. Það er því verið að þrengja aðgengi borgarbúa að þessari þjónustu. Þetta er þjónusta sem viðskiptavinir vilja hafa í nærumhverfi sínu til að þeir þurfi ekki að eyða of miklum tíma í það að keyra eftir þjónustunni, eða í biðtíma eftir henni. En borgin er með skipulagsvaldið og við þurfum auðvitað að eiga samtal við borgina um nánari útfærslur þessara aðgerða."

Jón Ólafur segir að sér hafi þótt merkilegt að lesa það í yfirlýsingu frá samkeppnisaðila (Skeljungi) um málið, að hann hafi haft frumkvæði að því og setið fundi í borginni um þetta mál.

„Mér þykir það mikil íhlutun af þeirra hálfu að reyna að hafa áhrif á þjónustuframboðið á markaðnum. Þeir geta ekki talað fyrir neinn nema sig og ef þeim þykir stöðvarnar vera of margar, þá hefði ég talið það eðlilegra að þeir fækkuðu stöðvum sínum í samræmi við það."

Hagræðingaraðgerð sem skili sér til neytenda

Már Erlingsson, aðstoðarforstjóri Skeljungs, segir það lengi hafa legið fyrir að fjöldi bensínstöðva sé of mikill í Reykjavík.

„Við erum jákvæð fyrir þessu markmiði og höfum verið að skoða það að fækka bensínstöðvum hjá okkur. Það kemur fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur að stefnt sé að því að fækka bensínstöðvum og því höfum við vitað af þessu í langan tíma. Þetta kemur okkur þar af leiðandi ekkert á óvart," segir hann og bætir við:

„Við lítum á þetta sem hagræðingaraðgerð sem muni skila sér til neytenda. Þjónustan mun minnka eitthvað en á móti kemur að eftirspurnin eftir jarðefnaeldsneyti er að dragast saman. Við sjáum hagræðingartækifæri í því að fækka stöðvum og selja því meira á hverri stöð. Borgin setur leikreglurnar í þessum málum og við höfum ekki enn ráðist í að fækka stöðvum okkar þar sem við höfum verið að bíða eftir þessum ramma frá borginni. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið af hálfu borgarinnar að  fara með aðlögunartímann úr 11 árum niður í 6. Okkur finnst tímaramminn svolítið knappur  en stefnum á að ganga vasklega fram í þessu máli."

Már  segir ummæli forstjóra Olís um meinta óeðlilega íhlutun Skeljungs í þessu máli byggða á misskilningi. „Hann les út úr fréttatilkynningunni að við höfum verið að hlutast til um þetta, því við höfum setið einhverja fundi. Þessir fundir sem er verið að vísa til var einn fundur á þessu ári, en forstjórar okkar hafa undanfarin 10 ár af og til verið kallaðir á fund borgarinnar þar sem þessi mál hafa borið á góma. Það er ekkert leyndarmál að þessi vinna hefur verið í gangi. Við höfum ekki verið að hlutast til um þetta mál með neinum hætti og hvorki komið minna né meira að þessu en aðrir hagsmunaaðilar."

Bensínstöðvar í íbúahverfum að renna sitt skeið

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, móðurfélags N1, kveðst nokkuð jákvæður fyrir þessu markmiði. Hann segir að tími bensínstöðva í íbúðahverfum sé að renna sitt skeið og að í framtíðinni verði bensínstöðvar við stofnbrautir. „Við höfum til dæmis óskað eftir því við borgina að fá heimild til að loka bensínstöðinni okkar á Ægisíðu í Vesturbænum og færa dælurnar á lóð Krónunnar a´ Fiskislóð. Þetta mál er í skoðun hjá borginni. Aftur á móti tel ég að þetta plan sem borgin var að birta sé nokkuð óraunsætt, hvað tímaramma varðar. Mér líst vel á hugmyndina en við eigum enn eftir að eiga samtal við borgina um það hvernig þetta allt saman muni fara fram. Ég tel að það hefði verið æskilegra ef það hefði verið haft meira samráð við olíufélögin og sameiginlegt plan sett fram. Við munum þó að sjálfsögðu vinna með yfirvöldum að þessu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Skeljungur N1 Olís Reykjavík bensínstöðvar