Arðgreiðslustefna félaganna í Kauphöllinni í Kauphöllinni er misjöfn og misgagnsæ, að því er segir í Hagsjá Landsbankans. Þar segir að vandséð sé að félögin séu öll með ákveðna og skýra stefnu hvað varðar arðgreiðslur. „Í flestum tilfellum miðast stefnan við ákveðið hlutfall af hagnaði eftir skatta. Arðgreiðslustefnan er mismetnaðarfull en það skýrist af nokkru leyti af eðli rekstrar og vaxtarmöguleikum fyrirtækjanna. Arðgreiðslustefnan er þó jafnan háð skilyrðum sem markaðsaðstæður, fjárhagsstaða og fjármögnunarþörf setja,“ segir í Hagsjánni.

Arðgreiðslustefna félaganna er jafnan orðuð þannig að félagið hyggist á næstu árum greiða út ákveðið hlutfall af hagnaði eftir skatta í arð. Á því eru þó undantekningar. Þannig tekur arðgreiðslustefna Haga mið af því að greiða hið minnsta 0,45 krónur á hvern hlut og að arðurinn aukist um a.m.k. 5% á ári. Össur hyggst vera með stöðugar arðgreiðslur og að þær byrji á 0,1 danskri krónu á hlut, en félagið greiddi arð til hluthafa sinna fyrir skemmstu í fyrsta skiptið frá því félagið var skráð á hlutabréfamarkað hér á landi. Þó stefna þessara félaga sé orðuð á annan hátt en gengur og gerist greiddu þau bæði svipað hlutfall út í arð af hagnaði sínum fyrir árið 2012 eins og hin félögin.

„Ekki er að sjá að öll félögin á OMX-markaðnum í Kauphöllinni hafi sérstaka arðgreiðslustefnu. Þannig er ekki hægt að greina að Reginn sé með sérstaka arðgreiðslustefnu. Sama á einnig við um Fjarskipti. Þetta kann þó að hanga saman við það að á síðustu árum hefur hvorugt félagið greitt út arð til hluthafa sinna. Arðgreiðslustefna félaganna kann því að vera sú að þau hyggist ekki greiða út arð á næstu misserum án þess þó að taka það fram með skýrum hætti.“

Í Hagsjánni segir að tryggingafélögin tvö, VÍS og TM séu með metnaðarfyllstu arðgreiðslustefnuna. VÍS hefur þá stefnu að möguleg arðgreiðsla miðist við allt að 100% af hagnaði hvers árs eftir skatta. Stefna TM er að lágmarki helmingur af hagnaði hvers árs sé greiddur út í arð. „Fljótt á litið gæti stefna VÍS litið út fyrir að vera metnaðarfyllri en eins og arðgreiðslustefna beggja félaganna er orðuð er ekkert sem segir að endanleg arðgreiðsla þeirra, sem hlutfall af hagnaði, verði ekki sambærileg á næstu árum.“

Af þeim félögum sem greiddu út arð á þessu ári lá hlutfallið á bilinu 20 til 30% af hagnaði síðasta árs og nam meðaltalið 22%. Icelandair greiddi út 30% af hagnaði sínum en Össur 22%. Eimskip, Hagar og Marel greiddu öll út 20% af hagnaði sínum. Af þessum fimm félögum greiddu Össur og Eimskip ekki út arð á síðasta ári en arðurinn hjá hinum félögunum lá á bilinu 17,4% til 23%.