Líkur eru á því að ríkistryggð skuldabréf gefi nokkuð misjafna ávöxtun eftir eðli þeirra á þessu ári. Verðtryggð bréf eru líkleg til að gefa nokkuð góða ávöxtun, en stutt óverðtryggð bréf eru fremur dýr. Þetta segir á vefsíðu Íslenskra verðbréfa þar sem farið er yfir helstu þætti síðasta árs á fjármálamarkaði og horfur ársins 2011.

„Við teljum að á árinu haldi óverðtryggðir innlánsvextir áfram að lækka og skili lítilli raunávöxtun. Einnig er viðbúið að verðtryggð innlán lækki nokkuð,“ segir í umfjöllun um horfur ársins 2011.

Í umfjölluninni segir að árið líti ágætlega út fyrir hlutabréf. Líklegra sé en hitt að bæði innlend og erlend hlutabréf geti hækkað nokkuð. „Innlendur hlutabréfamarkaður er þjakaður af fáum valkostum en þeir kostir sem eru fyrir á markaðinum og kunna að bjóðast á árinu geta hækkað verulega, þó svo að ekki komi til mikils innflæðis fjármagns inn á hlutabréfamarkaðinn.

Fjárfesting og neysla á heimsvísu er á uppleið sem hefur alla jafna jákvæð áhrif á hlutabréfaverð. Við teljum meiri líkur á hóflegri veikingu krónunnar en styrkingu sem hefði jákvæð áhrif á ávöxtun erlendra eigna og verðtryggðra eigna.

Útlit er fyrir að á árinu haldi óverðtryggðir innlánsvextir áfram að lækka og skili lítilli raunávöxtun. Einnig er viðbúið að verðtryggð innlán lækki nokkuð.  Líkur eru til þess að ríkistryggð skuldabréf munu gefa nokkuð misjafna ávöxtun eftir eðli þeirra.“