*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 24. nóvember 2011 19:51

Miskabætur til Pálma í Fons á herðar skattgreiðenda

Svavar Halldórsson segir dóm Hæstaréttar vonbrigði. Lán til félags Pálma enn ógreitt og ekki sýnt hvað varð um verðmætin.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

„Dómurinn er mikil vonbrigði. Ég reikna með að Ríkisútvarpið greiði þetta og þar með skattgreiðendur,“ segir fréttamaðurinn Svavar Halldórsson sem í dag var sakfelldur í Hæstarétti fyrir ein ummæli í frétt Ríkisútvarpsins um Pálma Haraldsson, löngum kenndan við Fons, og lánveitingar Glitnis.

Pálmi Haraldsson

Ummælin voru dæmd dauð og ómerk og Svavar dæmdur til að greiða Pálma 200 þúsund króna miskabætur. Þau María Sigrún Hilmarsdóttir og Páll Magnússon útvarpsstjóri voru hins vegar sýknuð og Pálmi dæmdur til að greiða þeim samtals 600 þúsund krónur í málskostnað.

Í frétt Svavars í vor kom fram að Glitnir hafi lánað félagi Pálma 2,5 milljarða króna í gegnum viðskiptafléttu fyrir hrun og þeir gufað upp. Í dómsorði kemur fram að við vinnslu fréttarinnar hafi Svavar ekki leitað staðfestingar hjá Pálma.

 

Ekki vitað hvað varð um lánið

Svavar segir dóminn sérkennilegan, ekki síst fyrir þær sakið að lánið sé enn ógreitt auk þess sem ekki hafi verið sýnt fyrir dómi hvað varð um verðmætin. Eftir því sem Svavar best veit hefur ekkert af láninu skilað sér aftur, hvorki til þrotabús Fons eða né Glitnis.

„Í mínum huga snýst þetta um það að ég var spurður um heimildamenn mína fyrir dómi. Ég hefði aldrei skrifað þessa frétt nema vera með öruggar heimildir. Þær gat ég ekki dregið fram fyrir dómi. Ég neitaði að upplýsa um þá. Ég lít því á þetta sem hvert annað hundsbit, herkostnað við að vernda heimildamenn,“ segir Svavar.

Svavar var sýknaður í sambærilegu máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun mánaðar. Það mál fjallaði um þriggja milljarða króna lán frá Fons vorið 2007 til huldufélagsins Pace Associates, sem skráð var í Panama. Jón Ásgeir, Hannes Smárason og Pálmi voru hluthafar í félaginu og hefur lánið sömuleiðis ekki verið greitt til baka. Jón Ásgeir hefur ekki áfrýjað úrskurðinum. 

Dómur Hæstaréttar

Mál Pálma gegn Svavari

Mál Jóns Ásgeirs gegn Svavari