Misklíð ríkir í stjórn Moss Bross vegna skiptra skoðana á tilboði félags á vegum Baugs að því er breska dagblaðið The Daily Telegraph greinir frá.

Er ágreiningurinn einkum sagður tengjast því að stjórnarformaður Moss Bross leyfði félagi Baugs að skoða bókhaldið, ákvörðun sem Mark Bernstein, framkvæmdastjóri verslunarkeðjunnar, sem er venslaður stofnendum þess, neitaði að styðja.

Félagið á vegum Baugs hefur lagt fram óformlegt tilboð sem hljóðar upp á 42 pens á hlut, sem þýðir að fyrirtækið er verðmetið á tæplega 40 milljónir punda.

Telja boðið rýra verðgildið

Bernstein er kvæntur inn í fjölskyldu stofnenda Moss Bross og þótt hann sé ekki opinber talsmaður hennar er talið að afstaða hans endurspegli hug margra fjölskyldumeðlima.

Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag eru tvær fjölskyldur ráðandi í Moss Bros, önnur svo kölluð Moss-fjölskylda og hin svokölluð Gee-fjölskylda, sem fara samtals með um 26% eign í fyrirtækinu.

Ólík sjónarmið hafa verið innan fjölskyldnanna og hefur skoðanamunurinn verið samningaviðræðum undanfarinna mánaða um kaup Baugs í fyrirtækinu fjötur um fót.

The Daily Telepgraph fullyrðir að margir fjölskyldumeðlimir telji að boð Baugs rýri verðgildi fyrirtækisins. „Íslendingarnir beita hluthafana þrýstingi,” hefur Evening Standard eftir Michael Gee og að þeir virðist hæstánægðir með að hlutabréfaverð Moss Bros sé lágt.