Óánægju gætir innan nokkurra minni fjármálafyrirtækja sem eru í Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) vegna viðbragða SFF við skýrslu Samkeppniseftirlitsins „Fjármálaþjónusta á krossgötum“. Skýrslan var kynnt fyrir tveimur vikum.

Eftir að SFF svaraði eftirlitinu kom til skoðunar að minni fjármálafyrirtæki segðu sig úr samtökunum. Í dag eru þó litlar líkur taldar á að einhver af minni fyrirtækjunum gangi út. Fyrir síðustu helgi fór SFF yfir málið með nokkrum af forsvarsmönnum minni fjármálafyrirtækja innan samtakanna.

Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, telur að samtökin eigi ekki að tjá sig með þeim hætti sem þau gerðu.

„Samtök fjármálafyrirtækja hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir fjármálafyrirtækin öll. Það eru hagsmunamál sem snerta öll fyrirtækin og ég sé ekkert að því að fyrirtækin vinni saman að þeim. Hins vegar eiga samtökin ekki að tjá sig með þeim hætti sem þau gerðu um daginn um mál þar sem hagsmunir aðildarfyrirtækjanna eru ekki þeir sömu eða jafnvel andstæðir,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.