Eins og sjá má hafa helstu prentmiðlar, allir nema einn, dalað töluvert undanfarin fimm ár. Grönnu línurnar sýna mældan lestur, en hinar breiðari hneigðina á tímabilinu.

Lestur Fréttablaðsins hefur minnkað langmest á tímabilinu, alls um tæp tólf prósentustig, sem jafngildir því að lestur blaðsins hafi dregist saman um fimmtung.

Aftur á móti er gaman að segja frá því að lestur Viðskiptablaðsins hefur aukist um tæpan þriðjung! Í þessu samhengi er einnig rétt að hafa fyrirvara um að mælingar Gallup eru ekki nákvæmar á eiginlegan lestur.

Þar er ekki mælt hvað, hversu mikið, hvar í blaðinu, hversu vel eða hversu oft menn lásu, heldur eru þetta uppsöfnuð svör um hvort menn hafi „flett eða lesið“ blaðinu í vikunni. Sem gæti þýtt að fólk hafi skoðað forsíðuna á leið frá lúgu út í tunnu. Ýmislegt, þar á meðal auglýsingaverð, bendir til þess að blöðin séu mjög misvel lesin.