Áhyggjur fjárfesta af hagvaxtarhorfum í Kína hafa sett mark sitt á gengi hlutabréfa í Asíu í nótt. Nikkei-vísitalan hélt þó áfram að hækka og nam hækkunin 0,72%. Aðrar vísitölur í Asíu hafa á hinn bóginn lækkað. ASX í Ástralíu lækkaði um 0,2% og þegar stutt var í lokun í Sjanghæ í Kína hafði vísitalan þar lækkað um 0,45%. Hang Seng vísitalan í Hong Kong hafði lækkað um 0,3% þegar klukkutími lifði af viðskiptum.

Reiknað er með að evrópskar vísitölur muni halda áfram að hækka í dag, en þó ekki mikið, eftir umtalsverða hækkun undanfarna daga. Ástæðan er fyrst fremst fyrirhuguð afgreiðsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á 28 milljarða evra láni til Grikklands en reiknað er með að hún verði samþykkt síðar í dag.