Hjá tveimur fasteignasölum sem koma að sölu íbúðarhúsnæðis er söluþóknun fyrir einkasölu föst fjárhæð en ekki prósentuhlutfall af söluverði, annars vegar rúm 210.000 kr. og hins vegar tæp 300.000 kr. Þetta kemur fram í könnun Neytendastofu á kostnaði við sölu fasteigna á meðal 60 fasteignasala. Algengasta söluþóknunin fyrir einkasölu er á bilinu 1,7-1,95% en þóknunin er frá 0,1% og upp í 2,95%. Fyrir almenna sölu er algengasta þóknunin á bilinu 2-2,5% en þóknunin er á bilinu 0,1% til 3,5%.

Þessar þóknanir eru flestallar án virðisaukaskatts en þjónusta fasteignasala ber 25,5% virðisaukaskatt. Af svörum fasteignasala að dæma virðist þóknunin oft umsemjanleg upp að vissu marki. Misjafnt er milli fasteignasala hvort þóknun sé tekin ef fasteign selst ekki. Af sölunum 60 sem þátt tóku í könnuninni taka 52% þeirra ekki þóknun ef eign selst ekki en 48% taka þóknun. Í þeim tilvikum þar sem tekin er þóknun er hún ákveðin föst fjárhæð á bilinu 9.000 kr. til rúmlega 60.000 kr.