Drög að frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að nýjum áfengislögum eru gölluð að mati Félags atvinnurekenda og fela í sér mismunun, meðal annars gagnvart framleiðendum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem stangist á við EES reglur.

FA segist þó fylgjandi markmiðum frumvarpsins um að liðka fyrir bæði net- og beina verslun með áfengi, en kallar eftir heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi áfengisframleiðslu og áfengisverslunar á landinu að því er fram kemur á vef félagsins .

Gerir félagið ýmsar athugasemdir við takmarkanir á því hvaða brugghús nýju heimildirnar til að selja áfengi beint án milligöngu ÁTVR gildi um, en í frumvarpinu er miðað við að framleiðslan verði að vera undir 500 þúsund lítrum á áfengu öli undir 12% að styrkleika.

Ferðaþjónusturökin gildi víðar

Þannig ættu slíkar undanþágur til að selja áfengi í neytendaumbúðum á framleiðslustað án milligöngu ÁTVR líka að gilda um innflytjendur sambærilegra drykkja frá EES löndum því annars væri um brot á jafnræðisreglu EES samningsins að ræða.

Einnig segir félagið 500 þúsund lítra árshámarkið vera án rökstuðnings sem útiloki stærri brugghús, og bendir félagið á að stærri brugghús hafi einnig byggt upp ferðaþjónustu í kringum sína starfsemi líkt og þau minni, en til þess er vísað í drögum frumvarpsins sem röksemd fyrir lagarýmkuninni.

Jafnframt segir félagið engin rök fyrir því að nýju undanþágurnar eigi bara að eiga við um þá sem framleiða áfengt öl, en ekki þá sem framleiða sterka drykki því í kringum slíka framleiðslu hafi einnig verið byggð upp ferðaþjónusta.

Engu betri afleiðingar af öli en sterku áfengi

Bendir félagið á að það sé útbreidd vitneskja að áhrif neyslu áfengs öls á t.d. lýðheilsu, umferðaröryggi og almannareglu séu síst vægari en af neyslu sterkari drykkja og því engin rök sjáanleg fyrir þessari mismunun.

Loks segir félagið að ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir þess um þann hluta laganna sem á að opna fyrir netverslun með áfengi innanlands, en eins og staðan er í dag geta Íslendingar pantað áfengi erlendis frá en ekki frá innlendum fyrirtækjum nema áfengið sé fyrst sent út.

Segir félagið líklegt að bæði innlendar og alþjóðlegar verslanakeðjur muni koma inn á áfengismarkaðinn í kjölfar þess að netverslun verði heimiluð sem muni leiða til þess að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði komin í beina samkeppni við einkaaðila sem muni minnka hratt vægi hennar.