Lífeyrissjóður verslunarmanna segir að tilkynni starfsmenn ekki um persónuleg gjaldeyrisviðskipti þá sé það brot á verklagsreglum um verðbréfaviðskipti starfsmanna. Ef vitað hefði verið af gjaldeyrisviðskiptum mannsins þá hefði honum verið sagt upp. Eins og vb.is greindi frá í dag vissi lífeyrissjóðurinn ekki af viðskiptum Gunnlaugs Briem , starfsmanns eignastýringar Lífeyrissjóðs verslunarinnar á árunum 2006 til 2008. Hann hætti störfum hjá sjóðnum sumarið 2009. Embætti sérstaks saksóknara ákærði Gunnlaug vegna meiri háttar brota á skattalögum þegar hann vantaldi fjármagnstekjur sínar upp á tæpar 600 milljónir króna og kom sér undan því að greiða 60 milljónir króna í skatt.

Lífeyrissjóðurinn sendi frá sér tilkynningu vegna málsins fyrir skömmu. Þar kemur m.a. fram að stjórn og stjórnendur Lífeyrissjóðs verslunarmanna líta það mjög alvarlegum augum ef starfsmenn misnota með framangreindum hætti það traust sem þeim er sýnt.

Notaði ekki eignir lífeyrissjóðsins

Lífeyrisjóðurinn vill koma því á framfæri að hvorki stjórnendur hans né aðrir starfsmenn eigi aðild að málinu. Þá er lögð áhersla á, eins og Guðmundur Þ. Þórhallsson , framkvæmdastjóri sjóðsins sagði í samtali við vb.is fyrr í dag, að starfsmaðurinn fyrrverandi notaði ekki eignir sjóðsins sér til fjárhagslegs ábata og ekki er um það að ræða að athæfi hans hafi rýrt fjárhagslega hagsmuni sjóðsins.

Strangar reglur gilda um verðbréfaviðskipti

Þá segir í tilkynningunni að umræddum viðskiptum hafi verið haldið leyndum fyrir stjórnendum og öðrum starfsmönnum sjóðsins, og komu hvergi fram í gögnum sem sjóðurinn hefur aðgang að. Áréttað er að strangar verklagsreglur gilda um verðbréfaviðskipti starfsmanna. Undanfarin ár hafi þær reglur verið endurskoðaðar, innra eftirlit hert og starfsfólk markvisst  upplýst um skyldur sínar og ábyrgð, allt í því skyni að tryggja sem best  að ekki bregði útaf góðum starfsháttum hjá sjóðnum.