Vélar og verkfæri ehf. er gert að greiða 10 milljóna króna sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sinni. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti stjórnvaldssekt sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði á félagið en það ákvað að skjóta úrskurðinum til dómstóla.

Fréttatilkynning Samkeppniseftirlitsins:

„Í apríl 2009 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vélar og verkfæri ehf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Þetta gerði fyrirtækið m.a. með því að koma í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu slík kerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð. Brot fyrirtækisins var talið alvarlegt og hafði áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda. Höfuðlyklakerfi eru aðgangskerfi að fasteignum og samanstanda af mismunandi lásum og lyklum fyrir tiltekna fasteign þar sem þó er til staðar einn höfuðlykill sem gengur að öllum lásum.

Vélar og verkfæri selja m.a. höfuðlyklakerfi og efni til að framleiða slík kerfi frá ASSA í Svíþjóð, og er í einokunarstöðu hér á landi í sölu á efni til að framleiða lyklakerfi af þessum toga. Þjónustuaðilar hafa gert leyfissamninga við Vélar og verkfæri um leyfi til að handa þeim til að framleiða, selja og þjónusta kerfin. Ákvæði í leyfissamningunum bönnuðu þjónustuaðilunum að selja höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA. Unnu ákvæðin því gegn möguleikum þeirra til að hefja innflutning í samkeppni við Vélar og verkfæri og unnu ennfremur gegn möguleikum annarra erlendra framleiðenda höfuðlyklakerfa að ná fótfestu á íslenskum markaði. Voru þessi ákvæði talin fela sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu Véla og verkfæra. Lagði Samkeppniseftirlitið sekt að fjárhæð kr. 15 milljónir á Vélar og verkfæri og er sú sekt umtalsverð miðað við veltu á viðkomandi markaði.

Vélar og verkfæri kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem í júlí 2009 staðfesti þá niðurstöðu að Vélar og verkfæri væru markaðsráðandi og að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og þar með brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með umræddum aðgerðum. Taldi áfrýjunarnefndin rétt að fyrirtækið greiddi 10 milljónir kr. í stjórnvaldssekt. Í kjölfar þessa skutu Vélar og verkfæri úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og kröfðust þess að hann yrði felldur úr gildi m.a. sökum þess að fyrirtækið teldi sig ekki vera markaðsráðandi og hefði ekki brotið samkeppnislög.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag er framangreind niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála staðfest.“