Sigurður G. Guðjónsson hefur komið víða við á þrjátíu ára ferli sínum í lögmennsku. Hann hefur einnig fengist við margt utan lögmennskunnar. Hann var kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar árin 1996, 2000, 2008 og 2012. Þá var Sigurður forstjóri Stöðvar 2 frá 2002 til 2004 og hefur fjárfest í fiskeldi og komið að stofnun dagblaðs og fjarskiptafyrirtækja. Í dag er helsta áhugamál Sigurðar að berjast fyrir bættri umgengni um land allt og beinir hann spjótum sínum daglega að Reykjavík.

Sigurður hefur verið lögfræðingur Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands hf., frá því í nóvember 2008.

Hvað finnst þér um framgöngu sérstaks saksóknara gagnvart honum?

„Það er held ég ekki við hæfi að ég ræði sérstaklega framgöngu embættis sérstaks saksóknara gagnvart þessum skjólstæðingi mínum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að stofnun embættis sérstaks saksóknara hafi verið mistök. Það að setja á laggirnar stofnun sem hefur það lögbundna hlutverk að rannsaka grun um brot í starfsemi nokkurra fyrirtækja sem hrundu vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu, sem leiddi til þess að neyðarlögin voru sett hér á í október 2008, er lítt í anda réttarríkisins. Réttarríkið kallar á viðvarandi og stöðuga refsivörslu, sem hefur það hlutverk að rannsaka alla meinta brotastarfsemi, án tillits til þess hvers eðlis hún er og hverjir eru gerendur. Refsivarslan á auk þess að vera hlutlæg í störfum sínum og skilvirk, enda bundið í stjórnarskrá að öllum beri réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli,“ segir Sigurður.

Hann telur að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki verið skilvirkt á neinn hátt þrátt fyrir að hafa nánast ómæld fjárráð og mikinn mannafla. Hann bendir á að enn sé verið að hefja rannsókn mála sem vísað var til þess í janúar 2011. „Stofnun embættis sérstaks saksóknara minnir mig um margt á stofnun sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum á árinu 1973, sem reyndist þegar upp var staðið hreint fíaskó. Eins var það þegar íslensk stjórnvöld áttuðu sig á því að efnahagsog bankakerfið var hrunið þá átti að redda fortíðinni og byggja nýtt og traust efnahagslíf upp með því að koma böndum á nokkra meinta gerendur með skjótum hætti þar sem embætti sérstaks saksóknara var upphaflega ætlaður fyrirfram ákveðinn og skammur líftími."

Þessu hafði maður aldrei kynnst áður vegna efnahagsbrots

„Embættið hefur verið þjónn framkvæmdavaldsins og þjóðarsálarinnar. Slík blanda opinbers valds er ávallt hættuleg. Maður fann fyrir þessu við fyrstu yfirheyrslu að starfsmenn embættisins fundu til valdsins, sem kom m.a. annars fram í því að eftir fyrstu yfirheyrsluna yfir Sigurjóni í júlí árið 2009, töldu rannsakendur hjá embættinu nauðsynlegt að niðurlægja hann með því að drasla honum í fangamyndatöku og taka fingraför svo engin hætta væri á að hann kæmist undan réttvísinni. Þessu hafði maður aldrei kynnst áður í íslenskri sakamálarannsókn vegna efnahagsbrots," segir Sigurður.

Ítarlegt viðtal er við Sigurð G. Guðjónsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .