Skortsala er mikilvægur hluti af verðmyndun á markaði þar sem aukin skortsala á til dæmis hlutabréfum fyrirtækis er til marks um að markaðnum þyki fyrirtækið of dýrt. Þetta segir G. Sverrir Þór, doktorsnemi í hagfræði, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu.

Hann segir að vitaskuld megi benda á að risavaxin verðbóla hafi sprungið í júlí 2007 þrátt fyrir að skortsala væri heimil. G. Sverrir Þór segir að spurningin sé hvers vegna skortsala hafi ekki virkað líkt og henni var ætlað. Í huga hans eru ástæðurnar tvær, annars vegar að skortsöluferlið sé ekki nógu gagnsætt og hinsvegar að fjárfestar hafi nýtt sér skortsölu til markaðsmiðsnotkunar.

Greinina í heild sinni má lesa hér:

Misráðið að banna skortsölur

Hundadagakreppan, eins og ég hef kosið að kalla þá skörpu efnahagslægð sem fylgdi í kjölfar hrunsins á fjármálamörkuðum heimsins á Hundadögum árið 2007, opnaði augu margra fyrir því að leikreglum á markaði var ábótavant og sömuleiðis að gagnsæi markaðarins var ekki nægilegt. Markaðurinn var einfaldlega ekki eins skilvirkur og margir höfðu talið og vísað í fræðikenningar máli sínu til stuðnings.

Ef þú spyrð tíu hagfræðinga hvað þeir telji hafa valdið Hundadagakreppunni er allt eins víst að þú fáir að minnsta kosti tíu mismunandi svör en þó má ætla að einhvers staðar sjáirðu þann rauða þráð að við ósamhverfni upplýsinga og algenga fylgifiska þess vandamáls, þ.e. hrakval og freistnivanda, sé að sakast. Ekki hef ég pláss til að fara mjög náið út í þá sálma hér en ósamhverfni upplýsinga felur í einfölduðu máli í sér að þegar tveir aðilar eiga viðskipti sín í milli hefur annar aðilinn aðgang að upplýsingum sem hinn hefur ekki. Ósamhverfni upplýsinga er þó ekki umfjöllunarefni mitt hér en tengist því þó þar sem þetta vandamál er afleiðing af öðru vandamáli sem ég hyggst öðrum þræði fjalla um, þ.e. skorti á gagnsæi.

Siðlausar skortsölur

Eins og áður segir rann það upp fyrir mörgum í kjölfar hrunsins á sumarmánuðum 2007 að leikreglunum væri ábótavant og því hafa þær raddir magnast að efla beri lagarammann, nokkuð sem m.a. stendur til að gera innan Evrópusambandsins. Meðal þess sem hefur verið rætt um að banna eru skortsölur á ýmiss konar fjármálagjörningum en skortsölur virðast í huga margra vera helsta birtingarmynd þess siðleysis sem margir vilja meina að hafi einkennt fjármálamarkaðinn undanfarinn áratug. Þeir eru sömuleiðis til, jafnvel meðal hagfræðinga, sem beinlínis vilja meina að skortsölur áttu stóran þátt í hruninu og alloft heyrist að skortsala á íslensku krónunni hafi valdið bankahruninu 2008 og efnahagskreppunni sem í kjölfarið herjar á íslenskt samfélag. Áður en lengra er haldið er þó ef til vill rétt að skýra aðeins nánar hvað skortsala er.

Í mjög stuttu máli felst skortsala í því að fjárfestir fær verðbréf að láni og selur í von um að verðgildið lækki. Þegar verðlækkunin hefur átt sér stað kaupir hann síðan bréfin aftur og skilar þeim og mismunurinn á kaup- og söluverði er hagnaður fjárfestisins. Skortsala gjaldmiðla er ekki ósvipað ferli, fjárfestir tekur fé að láni í einni mynt og kaupir fyrir það annan gjaldeyri með von um að myntin sem lánið er tekið í lækki í verði.

Kemur í veg fyrir bólumyndun

Ég get vel tekið undir þær raddir sem segja nauðsynlegt að efla ramma markaðarins og tel að róa beri öllum árum í þá átt að auka gagnsæi en að banna skortsölur alfarið tel ég þó afar misráðið. Skortsala er mikilvægur hluti af verðmyndun á markaði og þar af leiðandi einn nauðsynlegra innviða markaðarins.

Eins og áður segir er skortsala mikilvægur hluti af verðmyndun á markaði þar sem aukin skortsala á t.d. hlutabréfum einhvers fyrirtækis er til marks um að markaðnum þyki fyrirtækið orðið of dýrt. Hið sama á við um gjaldmiðla. Þannig er skortsala hluti af þeirri dýnamík markaða sem t.d. á að koma í veg fyrir bólumyndun.

Gagnsæi og markaðsmisnotkun

Nú má vitaskuld benda á að í júlí 2007 sprakk risavaxin verðbóla sem þandist út þrátt fyrir að skortsala væri heimil. Vissulega en spurningin á móti ætti þá að vera: Hvers vegna virkaði skortsalan ekki eins og henni er ætlað. Svarið er tvíþætt í mínum huga. Annars vegar er skortsöluferlið ekki nógu gagnsætt og hins vegar nýttu fjárfestar sér skortsölu til markaðsmisnotkunar.

Skortsöluferlið er ekki nægilega gagnsætt að því leytinu til að víða er engin upplýsingaskylda á fjárfestum, eða fjármálafyrirtækjum um hvaða hlutabréf eru lánuð eða hver það er sem fær þau að láni. Því er sá möguleiki víða fyrir hendi að skortselja án þess að markaðurinn verði þess var og þar af leiðandi gegnir skortsalan ekki því hlutverki sínu að hindra bólumyndun. Hvað markaðsmisnotkun varðar er fall bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns gott dæmi en um það bil er bankinn féll var það mikið rætt að óprúttnir fjárfestar hefðu skortselt hlutabréf og skuldabréf bankans og síðan komið af stað orðrómi um slæma stöðu fyrirtækisins. Þetta olli áhlaupi á bankann sem varð til þess að hann féll.

Að mínu mati er það alveg ljóst að skerpa þarf verulega á reglum um skortsölu, m.a. til þess að stuðla að auknu gagnsæi og koma í veg fyrir markaðsmisnotkun. Að banna hana er hins vegar fráleitt.

_________________________

Höfundur stundar doktorsnám í hagfræði.