Í ljós hefur komið að hlutfall sem Fjarskipti bera vegna óframkominna krafna í nauðasamningi Teymis sem og nafnverð hluta sem gefa þarf út til handa Stoðum, tekur mið af tölum sem misritast höfðu í skiptingareikningi Teymis. Þegar Teymi hf. var skipt upp annars vegar í Advania og hins vegar í Fjarskipti hf. (Vodafone) var ákveðið að félögin tvö bæru sameiginlega skyldu til uppgjörs allra krafna vegna nauðasamningsins. Í lýsingu, sem gefin var út í nóvember 2012 sagði að hlutur Fjarskipta væri 64,85%, sem fæli í sér útgáfu nýs hlutafjár í félaginu að fjárhæð 58,4 milljónir væru kröfurnar efndar að fullu og að þar af eigi 50,4 milljónir að koma í hlut Stoða hf.

Sem áður segir var misritun í skiptareikningi Teymis. Hið rétta er að Fjarskipti bera 65,82% af skuldbindingum Teymis og því nemur nafnverð þess hlutafjár sem gefa þarf út til handa Stoðum um 52,2 milljónum króna. Í tilkynningu frá Fjarskiptum segir að þar sem sú fjárhæð rúmast innan þeirrar heildarfjárhæðar sem tilgreint er í lýsingunni að gefa þurfi út til uppgjörs ólýstra krafna, þ.e. kr. 58.401.118, telji félagið að þessi misritun hafi ekki verðmyndandi áhrif, enda er fjárhæðin innan þeirra marka sem getið er um í lýsingunni varðandi óframkomnar kröfur.

Þar að auki er tilgreining á þynningu útgefins hlutafjár vegna útgáfunnar til handa Stoðum sú sama og tilgreind er í lýsingu, þ.e. 1,5%, sem er það hlutfall sem mesta þýðingu hefur fyrir hlutafé félagsins. Komi frekari kröfur til sem falla undir ákvæði nauðasamnings Teymis, ber félaginu að efna þær kröfur með útgáfu nýs hlutafjár í Fjarskiptum til samræmis við nauðasamning Teymis.