Már Guðmundsson og Þórarinn G. Pétursson bentu báðir á, þegar stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans var kynnt 10. desember síðastliðinn, að krónan gæti verið veik lengi áfram. Þórarinn nefndi að krónan gæti jafnvel verið veik í áratug eða áratugi.

Þetta var annar tónn en hafði áður heyrst á fundum með fulltrúum peningastefnunefndar Seðlabankans. Fram að þessu hafði alltaf verið talað um að krónan væri veikari en æskilegt væri. Um leið og óvissu um ákveðin atriði yrði eytt, eins og Icesave, fjárlagafrumvarp, virkni gjaldeyrishafta og efnahagsáætlun IMF, myndu forsendur skapast fyrir frekari styrkingu krónunnar.

Í fundargerð peningastefnunefndar fyrir síðasta stýrivaxtafund var farið yfir þróun efnahagsmála frá 5. nóvember. Þar segir: "Þótt gengi krónunnar væri áfram veikara en peningastefnunefndin taldi æskilegt litu nefndarmenn svo á að horfur fyrir gjaldmiðilinn næstu misserin hefðu batnað. Strangari reglugerð, aukið eftirlit og virkari framfylgd reglna hefðu leitt til þess að erfiðara væri að fara í kringum gjaldeyrishöftin. Þótt veruleg óvissa væri áfram um fjármagnsstreymi til skamms tíma litið töldu ýmsir nefndarmenn að vaxandi viðskiptaafgangur á tímabilinu sem framundan er myndi styðja við gengi krónunnar."

Það sjónarmið sem birt er í fundargerð peningastefnunefndar endurspegla sjónarmið sem áður hafa komið fram hjá nefndinni. Þau eru ekki í samræmi við þau sjónarmið sem Már og Þórarinn settu fram þegar stýrivaxtaákvörðun nefndarinnar var kynnt fjölmiðlum.