*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 28. mars 2019 13:55

Missa helminginn af verkefnum

Fall Wow air kallar á verulega endurskipulagningu í rekstri Airport Associates sem hefur um 400 starfsmenn.

Höskuldur Marselíusarson
Airport Associates, félagið sem Sigþór Kristinn Skúlason stýrir, sinnir ýmsum störfum fyrir flest flugfélög önnur en Icelandair á Keflavíkurflugvelli, en Wow air hefur verið stærsti viðskiptavinurinn.
Haraldur Guðjónsson

Airport Associates sem sér um þjónustu á Keflavíkurflugvelli við um 20 flugfélög mun þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn í kjölfar falls Wow air sem Viðskiptablaðið greindi fyrst fjölmiðla frá í morgun.

„Augljóslega erum við svekt yfir þessari stöðu, þetta er sorgardagur, bæði fyrir mig og starfsfólkið. Við erum að missa helminginn af þeim verkefnum sem liggja fyrir svo það þarf að fara í verulega endurskipulagningu,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason forstjóri Airport Associates sem segir áfallið fyrir hið 21 árs gamla félag ekki felast í skuldum Wow air við Airport Associates og móðurfélag þess.

„Það birtist um daginn einhver rugl frétt um að þeir skulduðu okkur 1,5 milljón dali, en hið rétta er að það eru ekki miklar skuldir, heldur hafa þeir staðið í skilum, og verið að borga okkur mjög reglulega. Fjárhagslega höggið fyrir okkur felst í því að þurfa að keyra starfsemina niður og verður sá tími sem það tekur kostnaðarsamur, því auðvitað verðum við með of mikið af starfsfólki. Við munum leita allra leiða til þess að gera þetta eins mildilega og hægt er en við munum þurfa að breyta ýmsu í rekstrinum til þess að aðlaga okkur að þessum nýja veruleika.“

Um 400 starfsmenn

Sigþór Kristinn hefur ásamt öðrum yfirmönnum félagsins verið á ferð milli deilda félagsins í morgun til að ræða við starfsmenn. „Við erum með í kringum 400 starfsmenn, og stór hluti af þeim hefur tekið þátt í að þjónusta Wow air,“ segir Sigþór Kristinn.

„Okkar starfsmenn sjá um að innrita og þjónusta fólk fyrir langstærsta hluta allra flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi, utan Icelandair og síðan erum við með allt sem er að gerast úti á flughlaðinu sjálfu. Þar erum við að afgreiða vélarnar, töskurnar og fraktina, við þrífum og gerum öryggisleit í vélunum og síðan erum við með alls konar stoðdeildir, til að mynda fraktdeild og vöruhús þar sem við tökum á móti frakt sem verið er að setja á vélarnar.“

Fall Wow bætist ofan á vandann með Maxinn

Sigþór Kristinn segir ljóst að áhrifin af falli Wow á þjóðarbúið muni koma ofaná vandræðin með Boeing 737 Max vélarnar, en hann telur það hafa haft áhrif á að leigusalarnir hafi brostið þolinmæðin. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun voru vélar félagsins kyrrsettar vestanhafs en það gerðist á sama tíma og samningaviðræður við kröfuhafa voru í gangi í nótt.

„Reyndar hafa önnur félög, sem við þjónustum og eru að nota Max vélarnar, leyst sín mál með því að leigja inn vélar. Það er alveg ljóst að að leigusalar Wow air hafa verið orðnir hræddir um að vélarnar myndu læsast hérna inni, á sama tíma og það er mikil eftirspurn eftir þessum vélum, sérstaklega vegna þessara vandræða með Maxinn, sem blasir við að sé ekkert að fara að fljúga á næstunni,“ segir Sigþór Kristinn.

Búið að festa áætlanir sumarsins

Sigþór Kristinn sér ekki fyrir sér að önnur félög nái að bæta við það framboð sem nú hverfur í sumar á framboði flugferða til landsins, þó til að mynda Wizz air hafi tilkynnt um viðbótarflug sama dag og eigendur þeirra í Indigo Partners hafi ákveðið að draga sig út úr samningaviðræðum við Wow air.

„Það er bara dropi í hafið og telur varla. Við erum komin svo nálægt sumrinu að flugfélög eru löngu búin að ákveða hvernig þau ætla að fljúga í sumar, ég hef ekki trú á því að mikið bætist því við fyrir sumaráætlunina,“ segir Sigþór Kristinn sem er þó bjartsýnn á framtíð félagsins.

„Það hefur verið mikill vöxtur undanfarin ár, og allir verið að bæta í, ekki bara Wow air og svo önnur komið inn á markaðinn, þó Wow air hafi verið drifkrafturinn í okkar vexti. Við erum þó búin að afgreiða fjölmörg félög löngu áður en Wow air kom til sögunnar og munum halda því áfram.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is