*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 1. apríl 2020 07:01

Missa vonina á örum viðsnúningi

Hagfræðingar telja öran viðsnúning efnahagslífsins æ ólíklegri. Líklegra sé að það jafni sig hægt og bítandi.

Ritstjórn
Ferða- og veitingaþjónusta er sögð verða með því síðasta sem kemst í eðlilegt horf aftur, þar sem samkomu- og ferðabönnum verði að líkindum aflétt hægt og rólega, og neytendur varir um sig fyrst um sinn.
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðingar telja æ líklegra að viðsnúningur efnahagslífsins í kjölfar kórónufaraldursins komi hægt og bítandi, í stað þeirrar V-laga þróunar sem spáð hafði verið, þar sem hjól atvinnulífsins færu á fullt um leið og ástandið væri yfirstaðið. Hefur merki fatamerkisins Nike verið nefnt í því samhengi. Bloomberg segir frá.

Samdráttur heimshagkerfisins er nú þegar hafinn, og allar líkur á að heimsframleiðsla verði minni í ár en í fyrra. Vonir hafa hinsvegar staðið til að hagkerfið gæti tekið hressilega við sér á seinni hluta ársins, en þær virðast sífellt óraunhæfari.

Stærsti óvissuþátturinn er faraldurinn sjálfur. Enn er afar erfitt að segja til um hvenær hann verður genginn yfir, að minnsta kosti nægjanlega til að efnahagslífið geti farið að ganga sinn vanagang á ný. Náist það ekki í sumar segir nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Joseph Stiglitz það muni magna verulega upp efnahagsáhrifin.

Lengur að fara aftur að leika en vinna
Afar ólíklegt er að faraldurinn deyji einfaldlega út á næstu mánuðum, þannig að heilbrigðisyfirvöld gefi það út að allt geti farið í fyrra horf. Úrræði á borð við félagsforðun (e. social distancing) eru lykilatriði í að halda aftur af útbreiðslu veirunnar. Því munu yfirvöld að öllum líkindum slaka hægt og rólega á þeim úrræðum, og efnahagslífið þar með taka við sér á sama hraða.

Er þetta sagt munu bitna hvað verst á greinum eins og ferðaþjónustu og veitingarekstri, sem ekki geti starfað eðlilega fyrr en ferðalög og samkomur verði gefin frjáls á ný. „Það mun taka lengri tíma að fara aftur að leika en að fara aftur að vinna,“ er haft eftir Catherine Mann, aðalhagfræðingi Citigroup. Þetta hefur meðal annars sýnt sig í Kína, þar sem það versta er þegar yfirstaðið og yfirvöld hafa opnað markaði á ný, en neytendur eru enn varir um sig.