Ólafur Arnarson er fyrstur Íslendinga til að koma út með bók um bankahrunið en bók hans Sofandi að feigðarósi var kynnt í síðustu viku.

Í viðtali við Viðskiptablaðið kemur fram að honum þykir athyglisvert að komast að því að Íslendingar hafa búið í jákvæðan búning nokkuð, sem erlendis er talið mjög neikvætt.

„Við höfum búið til hið jákvæða orð, „kjölfestufjárfestir“ um það þegar einn stór aðili verður ráðandi hluthafi í almenningshlutafélagi. Þarna notum við tilvísun í sjósókn og kjölfestan er jú ekki bara góð heldur blátt áfram nauðsynleg. Það er hins vegar ekki til neitt orð í t.d. ensku yfir kjölfestufjárfesti."

Ólafur bendir á að það er vegna þess að lög og reglur um hlutafélög og hlutabréfamarkaði miða að því að koma í veg fyrir að stórir hluthafar verði ráðandi í  almenningshlutafélögum.

„Það er nefnilega talið að ráðandi hluthafar geti beitt félögum, og þá ekki síst fjármálafyrirtækjum, í sína þágu en jafnvel gegn hagsmunum minni hluthafa. Eitthvað virðist nú hafa borið á slíku hér á landi."

Ólafur segist aðspurður um tilurð bókarinnar að hann hafi fundið áþreifanlega fyrir hruninu á eigin skinni því í kjölfarið var hætt við verkefni, sem hann vann að hjá Landic Property, og þurfti hann að finna sér ný viðfangsefni í framhaldinu.

„Góður vinur minn hringdi í mig og orðaði við mig hugmynd um að skrifa bók um hrunið og hvað hefði orsakað það. Úr varð að ég sló til og setti mig í samband við JPV forlag. Jóhann Páll og Egill Örn féllust á að gefa bókina út. Frá byrjun lagði ég upp með það markmið að skrifa læsilega bók, sem ekki væri miðuð að þörfum fræðimanna á sviði hagfræði eða fjármála; sem sagt skrifa á mannamáli. Mig langaði til að skrifa bók, sem læsist eins og reyfari, enda umfjöllunarefnið reyfarakennt. Þannig byrja ég á „glæpnum“ og nota svo stílbrögð reyfarans til að útskýra hvað það var sem leiddi til hans. Mér fannst umræðan um hrunið mjög einhæf og að menn einblíndu um of á forsvarsmenn bankanna og útrásarfyrirtækjanna þegar sökin lá að stórum hluta annars staðar."

Ekki hlustað á Seðlabankann

Hvað kom þér mest á óvart við rannsókn þína?

„Það kom mér einna mest á óvart hve mjög Seðlabankinn varaði við aðsteðjandi hættu og hve lítið var hlustað á þær aðvaranir. Í ritinu Fjármálastöðugleika bæði 2007 og 2008 eru mjög skýr aðvörunarorð. Einhverra hluta vegna litu stjórnmálamenn og viðskiptalífið á þessar skýrslur Seðlabankans sem heilbrigðisvottorð fyrir bankakerfið þegar sérstaklega var verið að vara við því að veislunni væri lokið og nú myndi reyna á styrk bankanna og fjármögnunargetu þeirra."

Hvað heldur þú að muni koma út úr rannsóknum á hruninu og hvernig mun það breyta þjóðfélaginu?

„Það er nú erfitt að gerast spámaður og sérstaklega ef það á að spá um framtíðina. Ekki ætla ég að reyna að spá um niðurstöður á sakarannsókn. Við munum væntanlega reyna að passa upp á að eignarhald banka verði mun dreifðara þegar þeir verða einkavæddir, en raunin varð í síðustu bankaeinkavæðingu. Þá munum við líkast til gæta þess að launakjör stjórnenda bankanna verði með þeim hætti að þau hvetji ekki til hömlulausrar áhættusækni. Við hljótum að hafa virkara eftirlit með banka- og fjármálakerfinu en verið hefur. Sennilega er nauðsynlegt að setja Fjármálaeftirlitið aftur inn í Seðlabankann til að einhvers staðar sé aðili, sem hefur raunverulega heildarsýn. Peningakerfið okkar er ónýtt og mín von er að við tökum fljótt stefnu inn í ESB með upptöku evru að markmiði. Annars er hætt við að við brennum okkur illa aftur, þ.e. þau okkar sem verða eftir hér á landi. Ég er sannfærður um að ungt og vel menntað fólk muni ganga í ESB  hvort sem þjóðinni í heild auðnast að gera það eða ekki."

Nú eru „blaðamannabækur" ekki algengar á Íslandi - gæti þín fallið undir þá skilgreiningu?

„Ég hugsa að mín bók geti hæglega fallið undir skilgreininguna „blaðamannabók“. Ég var auðvitað einu sinni blaðamaður þó að það séu komnir bráðum tveir áratugir síðan ég starfaði síðast á fjölmiðli. Svo liggur að sjálfsögðu mikil rannsóknarvinna að baki bókarinnar. Það má alveg kalla það rannsóknarblaðamennsku. Við skrif bókar um svona flókna atburðarás gengur maður í smiðju reynslunnar. Þar koma til fyrri störf, m.a. í blaðamennsku en ekki síður störf mín hjá alþjóðlegum fjármálafyrirtækjum og kynni mín af íslenskum stjórnmálum. Blaðamennskan hefur reyndar nýst mér vel í flestum þeim störfum, sem ég hef tekist á hendur. Það er ómetanlegur skóli að vinna nákvæmnisvinnu með „deadline“ hangandi yfir sér."

Var starfsmaður Landic

Var gerð e-h tilraun til að hafa áhrif á þig við skrifin?

,,Nei."

Nú varst þú starfsmaður hjá Landic - hefur það e-h áhrif á sjónarhorn þitt?

„Ef ég skil spurninguna rétt ertu að vísa til þess að Landic telst til þeirra fyrirtækja, sem tengd eru Baugi. Ég starfaði hjá Landic í sjö mánuði og get sannarlega sagt að það var mjög skemmtilegur vinnustaður og samstarfsfólkið fyrsta flokks fagmenn fram í fingurgóma. Það að ég starfaði þarna hafði engin áhrif á mitt sjónarhorn. Ég hef aldrei verið einn þeirra, sem finn Baugi allt til foráttu þó að gjörðir þess fyrirtækis séu að sjálfsögðu ekkert yfir gagnrýni hafnar fremur en verk annarra."

Varstu á uppsagnarfresti hjá Landic á meðan þú skrifaðir bókina?

„Nei, ég hætti hjá Landic í lok nóvember og síðustu launin, sem ég fékk voru fyrir nóvember. Þetta minnir mig mjög á það þegar ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum fyrir 5 árum vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Þá hringdi Ólafur Teitur Guðnason í mig og spurði hvort rétt væri að ég væri starfsmaður Baugs. Það var ekki rétt, en þegar ég gekk á hann með það hvaðan hann hefði heyrt slíkt sagði hann mér að það hefði verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefði sagt honum það. Ekki fékk ég meira upp úr honum. Það er ákveðinn hópur í Sjálfstæðisflokknum sem afgreiðir alla gagnrýni þannig að hún sé runnin undan rifjum Baugs. Þessir menn geta ekki ímyndað sér að neinn geti gagnrýnt Davíð eða Sjálfstæðisflokkinn öðru vísi en að fá greitt fyrir það frá Baugi. Þeir hafa verið furðu valdamiklir í Sjálfstæðisflokknum fram á þennan dag og stunda þá list af alúð að skjóta úr launsátri."