*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 2. desember 2019 18:58

Misskipting minnkaði í síðustu uppsveiflu

Fyrra hagvaxtarskeið aldarinnar náði til fleiri atvinnugreina og tekjuhópa en landfræðileg misskipting var minni í þeirri síðari.

Kristján Torfi Einarsson
Mikill munur er á skiptingu hagvaxtar milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins í uppsveiflunum tveimur á þessari öld.
Haraldur Guðjónsson

Efnahagslífið úti á landi er ekki endilega í takti með hagkerfi borgarinnar en ólíkt tímabilinu fyrir hrun jókst framleiðsla álíka mikið á höfuðborgarsvæðinu og utan þess á síðasta hagvaxtarskeiði. Töluverður munur var hins vegar á hlutdeild einstakra landshluta í góðærinu sem framar öðru var drifið áfram af miklum vexti í ferðaþjónustu.

Á síðasta hagvaxtarskeiði jókst framleiðsla nokkuð svipað á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Árlegur hagvöxtur á tímabilinu 2012-2017 var að meðaltali 4,9% á landinu öllu; á höfuðborgarsvæðinu var að jafnaði um 5% vöxt að ræða en utan þess jókst framleiðsla að meðaltali um 4,7% árlega.

Á hinn bóginn greinir töluvert á milli einstakra landshluta á sama tímabili. Framleiðsla jókst mest á Suðurnesjum eða um 10,4% að jafnaði árlega. Minnstur var vöxturinn á Austurlandi þar sem framleiðsla jókst að meðaltali um rúmt prósent á ári. Þetta þýðir að hagkerfið á Suðurnesjum stækkaði þannig um 64% á umræddum fimm árum en á Austfjörðum var aðeins um 6% vöxt að ræða.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, Hagvöxtur eftir landshlutum, sem  var unnin af Dr. Sigurði Jóhannssyni hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Byggðastofnun sem jafnframt gefur skýrsluna út.

Góðæri 21. aldarinnar

Frá aldamótum hafa tvö hagvaxtarskeið átt sér stað sem bæði náðu hámarki um miðbik áratuganna tveggja sem af öldinni eru liðnir. Skýrsla Byggðastofnunar miðar umfjöllun sína fyrst og fremst við hagþróunina á árabilinu 2012-2017 og fyrir vikið endurspeglar hún ansi vel landfræðilega skiptingu ágóðans af síðasta hagvaxtarskeiði sem var eitt það lengsta og mesta í hagsögu þjóðarinnar.

Skýrslan skoðar einnig þróun einstakra landshluta lengra aftur í tímann eða síðastliðin 20 ár og nær þannig líka yfir góðærið á fyrsta áratug aldarinnar. Samanburður leiðir í ljós að mikill munur er á því hvar og hverjir nutu ávaxta hagvaxtarins á hvoru tímabili og sömuleiðis hvaða landsvæði sátu eftir þegar veislan stóð yfir.

Á árunum 2003-2008 var það bankakerfið sem dró hagvaxtarvagninn ásamt stórum orkuframkvæmdum í grennd við Reykjavík og á Austurlandi, þar sem einnig var byggt álver. Uppgangurinn á þessum tíma var að miklu leyti bundinn við höfuðborgarsvæðið og Austurland. Sömuleiðis fundu höfuðborgarbúar mest fyrir hruninu og niðursveiflan sem fylgdi í kjölfarið kom harðast niður á höfuðborgarsvæðinu þar sem bankarnir voru með höfuðstöðvar sínar.

„Á þessu fimm ára tímabili er vöxturinn langmestur á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, 40-45%. Þá hefur framleiðsla aukist um 31% á Austurlandi á þessum fimm árum, fyrst og fremst vegna nýs álvers og nýrrar virkjunar. Á Vesturlandi og Suðurlandi er einnig nokkur vöxtur. Á Vestfjörðum og Norðurlandi er hins vegar stöðnun eða afturför,“ segir í skýrslunni Hagvöxtur landshluta 2003-2008 frá árinu 2010.

Árið 2012 var hagkerfið enn í sárum eftir hrunið en í hönd fór eitt mesta hagvaxtarskeið hér á landi á seinni árum. „Meginskýringin á hröðum hagvexti þar er straumur ferðamanna hingað til lands, en á árunum 2012 til 2017 fjölgaði útlendingum sem fóru um Keflavíkurflugvöll úr tæplega 650 þúsundum í 2,2 milljónir,“ segir í skýrslunni þar sem einnig kemur fram að uppgangur ferðaþjónustu á Íslandi hafi verið „einstakur“.

Dreifist víðar en á færri hópa og greinar

Dr. Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur og forstöðumaður Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands, vann skýrsluna í samvinnu við starfsmenn Byggðastofnunar. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að landfræðileg misskipting hafi verið minni á síðasta hagvaxtarskeiði samanborið við uppsveifluna fyrir hrun. Á hinn bóginn hafi hagvaxtarskeiðið upp úr aldamótunum náð til bæði fleiri atvinnugreina og tekjuhópa.

„Uppsveiflan á fyrsta áratug aldarinnar var að meira leyti takmörkuð við höfuðborgarsvæðið og Austurland. Þá togaði höfuðborgin líka af meiri krafti í fólk af landsbyggðinni en nú – og brottflutningurinn skildi eftir sig skörð í aldurshópana frá 20-40 ára á sunnanverðum Vestfjörðum, Siglufirði og víðar. Uppsveiflan nú dreifist jafnar yfir landið. Hagvöxtur er svipaður frá 2012 til 2017 á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Meira að segja er þokkalegur vöxtur á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, þar sem lengi hefur verið stöðnun eða samdráttur. En Suðurnes og Suðurland standa náttúrlega langt upp úr,“ segir Sigurður.

„Annað sem greinir að þessi tvö hagvaxtarskeið er að hagvaxtarskeiðið til 2007 náði til fleiri atvinnugreina og fleiri tekjuhópa en nú. Margir háskólamenn fengu vel launuð störf í bönkunum á fyrstu árum aldarinnar. Fyrirtæki í ferðaþjónustu ráða hins vegar mörg hver einkum fólk í láglaunastörf. Straumur ferðamanna leiðir til góðrar afkomu í veitinga- og hótelrekstri og hás gengis krónu á meðan framboð af hótelrými og veitingastöðum heldur ekki í við vaxandi eftirspurn, en hagnaðurinn fjarar út eftir því sem fleiri hótel rísa.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.