*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 1. janúar 2017 14:49

„Misskipting veldur sundrungu og spennu“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ræddi meðal annars misskiptingu auðs og „sanngjarnan skerf“ einstaklinga til samfélagsþarfa í fyrsta áramótaávarpi sínu í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti sitt fyrsta nýársávarp í dag. Ræddi hann meðal annars efnahagslegan ójöfnuð og jafnan rétt einstaklinga til menntunar og lækninga.

Sagðist forsetinn telja að flestir Íslendingar séu einhuga um meginstoðir samfélagsins, jafnan rétt allra samfélagsþegna til tvenns konar þjónustu, óháð efnahag: grunnmenntun og lækninga.

„Sátt virðist líka ríkja um nauðsyn þess að heilbrigðis- og menntakerfi landsins standi undir nafni. Sé þannig að verki staðið er minni hætta en ella á því að fólk festist í fátækt og forlagafjötrum. Um leið eiga allir að geta spreytt sig, skarað fram úr, efnast, gert vel við sig og sína en goldið sanngjarnan skerf til samfélagsþarfa,“ sagði forsetinn.

Forsetinn ræddi einnig fjármagnsskipulag og ráðstöfun auðs í samfélaginu og tók undir sjónarmið tveggja vinstrimanna í því samhengi.

„[A]ukin misskipting veldur sundrungu og spennu. Mannkyni mun aldrei farnast vel ef eitt prósent jarðarbúa á eins mikinn auð og hin 99 prósentin til samans. Ógn stafar af fjármagnsskipulagi sem örfáir stýra og tekur ekki mið af hagsmunum fjöldans. Þannig hafa Barack Obama Bandaríkjaforseti og vísindamaðurinn Stephen Hawking nýlega komist að orði og undir þessi sjónarmið má taka,“ sagði forsetinn.

Sagði forsetinn einnig að styrkur ríkis og þjóðfélags væri fólginn í því hvernig hlúið væri að þeim sem þyrftu á þjónustu að halda.

„Það er nefnilega þannig að styrkur ríkis og þjóðfélags er ekki metinn eftir hagvexti eða þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Og þótt við fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta eru þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins.

Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu. Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd.“

Talaði forsetinn einnig um að einsleitni í íslensku samfélagi væri liðin tíð.

„Framfarir um okkar daga byggjast á fjölbreytni; flæði hugmynda og fólks um víða veröld. Um leið verðum við þó ætíð að tryggja og vernda grunngildi okkar; réttarríki og velferðarsamfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna, trúfrelsi og ástfrelsi, málfrelsi og menningarfrelsi.“