Félag atvinnurekenda (FA) segir að stjórnvöld hafi kastað frá sér tækifærum til að auka fríverslun með búvörur við Bretland vegna harðar andstöðu hagsmunaaðila í Landbúnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA .

„Það er ljóst að bresk stjórnvöld höfðu áhuga á að auka talsvert fríverslun með búvörur. Þau buðu umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir undanrennuduft sem hefði átt að vera augljóst hagsmunamál íslenskra mjólkurbænda og -framleiðenda, enda hefði kvótinn nýst nýrri skyrverksmiðju Íseyjar skyr í Wales. Bretar fóru á móti fram á aukna tollkvóta fyrir osta og kjötvörur, miklu minni að umfangi en þeir tollkvótar sem Íslandi stóðu til boða í Bretlandi. Vegna harðrar andstöðu hagsmunaaðila í landbúnaði við aukinn tollfrjálsan innflutning var þessu tækifæri fórnað og samningurinn kveður eingöngu á um að þeir gagnkvæmu tollkvótar, sem voru í bráðabirgðasamningi Íslands og Bretlands frá 2019, haldi sér," segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í tilkynningunni.

Íslensk fyrirtæki geta flutt tollfrjálst út 692 tonn af lambakjöti til Bretlands og 329 tonn af skyri. Bresk fyrirtæki fá hins vegar að flytja inn 19 tonn af ostum, 11 tonn af ostum með verndað afurðarheiti og 18,3 tonn af unnum kjötvörum. Kvótarnir byggjast á viðskiptum ríkjanna áður en bráðabirgðasamningur var gerður árið 2019.

Hagsmunaaðilar í Landbúnaði andsnúnir aukinni fríverslun

Athygli er vakin á því að hagsmunaaðilar í landbúnaði hafi lagst gegn víðtækari fríverslun með búvörur við Bretland þar sem að aukin verslun með undanrennuduft felur í sér mörg tækifæri. Til að mynda hefði MS getað skapað greitt aðgengi að tollfrjálsu undanrennudufti í skyrverksmiðju Íseyjar í Wales en erfitt hefur verið að koma því í verð á erlendum mörkuðum. Bent er á að MS hefur enga innlenda samkeppni í sölu á mjólkur- og undanrennu og í skjóli tollverndar er engin erlend samkeppni heldur. Innlend matvælafyrirtæki neyðast því til að kaupa þessar vörur af MS á hærra verði og þá hafi Bændasamtökin metið það sem svo „að það sé betra að þvinga íslenska neytendur til að kaupa þessi kíló á tollvernduðum fákeppnismarkaði en að selja þau erlendis á virkum samkeppnismarkaði," segir Ólafurí tilkynningunni.

Þá greindi MBL frá því í dag að Bændasamtökin hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri afstöðu sinni til einstakra atriða í samningum en aðrir fulltrúar fengu ekki tækifæri til þess. „Því er ósvarað hvers vegna Bændasamtökin eru umsagnaraðili í þessum samningaviðræðum en ekki t.d. fulltrúar verslunarinnar, neytenda eða Samkeppniseftirlitið. Þessi aðkoma sérhagsmuna umfram hina almennu hagsmuni vekur sérstaka furðu. Eins og málalyktir varðandi samninginn við Bretland sýna, virðist vera vaxandi andstaða hjá hagsmunaöflum í landbúnaði við að leyfa vindum fríverslunar og samkeppni að blása."