Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, var gestur í þættinum Á Sprengisandi í morgun. Þar sagði hann meðal annars að þingsalurinn dragi fram það versta í fólki og að Viðreisn hefði átt að bregðast öðruvísi við boðuðum stjórnarslitum Bjartrar framtíðar síðasta haust.

„Við misstum svolítið tökin á þessu líka þega atburðirnir eru komnir á stað. Mér fannst að sumu leyti að við hefðum ekki átt að, og finnst það núna þó ég beri auðvitað ábyrgð á því, að við hefðum ekki átt að hittast þarna um nótt og vera að krefjast kosninga í ljósi stöðunnar,“ sagði Benedikt í þættinum. Réttara hefði verið að bíða og sjá til þar sem hlutirnir gerðust mjög hratt.

Í þættinum sagði Benedikt einnig að sér hefði ekki þótt sérstaklega skemmtilegt á þingi og að þingsalurinn væri eins og leiksvið þar sem menn fylltu upp í ræðutíma til þess eins að tala, en að í nefndarstarfinu væri unnin góð vinna.