Vilhjálmur Þorsteinsson segir sumt hafa færst til betri vegar hvað varðar starfsumhverfi sprotafyrirtækja, en annað hafi hins vegar þróast á verri veg. Hann hefur sjálfur fjárfest í sprotafyrirtækjum og situr í stjórnum nokkurra þeirra. Í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu segir Vilhjálmur að hann hafi orðið virkur í sprotageiranum eftir bankahrunið.

„Það hefur breyst mikið frá því sem var fyrir hrun. Frá 2005 til 2008 gerðist í raun lítið sem ekkert í sprotageiranum. Fólki þótti ekki aðlaðandi að byggja upp eigið fyrirtæki frá grunni og fór frekar í bankana. Þess vegna misstum við nokkra árganga á þessum tíma. Núna er auðveldara að fá hæfileikaríkt fólk og áhugi á sprotafyrirtækjum er mun meiri en hann var fyrir nokkrum árum. Það sem kemur á móti er að það er ekki mikið af einkafjármagni. Sjóðirnir þrír, Tækniþróunarsjóður, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og svo Frumtak hafa fyllt í þessi fjármögnunargöt og hafa allir þrír staðið sig vel að mínu mati.“

Hann segir að ferlið hafi gengið ágætlega hjá mörgum fyrirtækjum, þau séu að vaxa og dæmi sé um að þau hafi verið seld til erlendra fjárfesta. „Það sem er erfitt eru gjaldeyrishöftin, en þau gera það mjög erfitt að finna fjárfesta erlendis. Þeir eiga erfitt með að skilja þau og eru svo tortryggnir á að geta fengið fé sitt aftur út úr landinu. Sprotafyrirtækin hafa þurft að vera í flóknum æfingum til að gera einfalda hluti eins og að stofna dótturfyrirtæki erlendis.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.