Miðstjórn ASÍ lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu efnahagsmála. Verðbólga er mikil, vextir háir og framundan er samdráttur i hagkerfinu, rýrnandi kaupmáttur og aukið atvinnuleysi. Mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum ásamt alþjóðlegri lausafjárkreppu hefur leitt til gengisfalls krónunnar og innlendrar lánsfjárkreppu. Í kjölfarið hefur fylgt mesta verðbólga í 18 ár. Þetta er alvarlegasta staða sem við höfum staðið frammi fyrir í langan tíma. Á sama tíma og verðbólga er mikil og vextir mjög háir, hægir á hjólum efnahagslífsins.

Við þessar aðstæður er hætt við að unga fólkið sem nýlega hefur ráðist í sín fyrstu húsnæðiskaup lendi í greiðsluvandræðum og komist í þrot ef ekkert verður að gert. Þegar við bætist að núverandi vaxtastig og aðgengi fyrirtækja að lánum veldur því að hjól atvinnulífsins eru að stöðvast má búast við að fjöldi heimila lendi í vandræðum því atvinnuleysi mun að óbreyttu vaxa hratt þegar líður á árið. Gagnvart þessari stöðu virðast stjórnvöld standa úrræðalaus.

Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að stjórnvöld grípi þegar til aðgerða til að sporna gegn vaxandi atvinnuleysi og fjöldagjaldþrotum. Í því sambandi telur miðstjórnin mikilvægt að opinberir aðilar auki mannaflsfrekar framkvæmdir s.s. viðhaldsverkefni og reyni eftir megni að afstýra þeirri innlendu lánsfjárkreppu sem við búum við. Miðstjórnin telur einnig mikilvægt að Íbúðalánasjóður verði nýttur til að aðstoða skuldsett heimili sem komast í þrot með því að veita greiðsluerfiðleikalán.