*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 18. mars 2018 11:09

Mistök gerð varðandi Icelandic Group

„Stjórn Framtakssjóðsins beygði sig ekki undir gagnrýni eða pólitískan þrýsting og lét verkin tala,“ segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

Snorri Páll Gunnarsson
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Það voru mistök að reyna að endurreisa Icelandic Group sem eina rekstrareiningu eftir hrun, en hefði Framtakssjóður Íslands (FSÍ) strax selt fyrirtækið í einingum hefði sjóðurinn mögulega getað lokið starfi sínu fyrr og fengið hærri ávöxtun. 

Þetta er mat þeirra Ásgeirs Jónssonar, hagfræðings og dósents við Háskóla Íslands, og Alexanders Freys Einarssonar, meistaranema í fjármálum við MIT Sloan School of Management, í nýrri úttekt á starfsemi FSÍ. Sjóðurinn, sem stofnaður var af 16 lífeyrissjóðum árið 2009, hefur lokið eiginlegum rekstri sínum. Sú gagnrýni sem helst hefur beinst að FSÍ snýr að því hvernig staðið var að endurskipulagningu Icelandic Group.

„Þetta fyrirtæki hafði ekki rekstrarerindi á Íslandi eftir að utanríkisverslun varð frjáls eftir árið 1990,“ segir Ásgeir. Icelandic Group, áður Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) var stofnað árið 1942 og seldi sjávarafurðir frá Íslandi á erlenda markaði. Fyrirtækið, líkt og önnur sölusamtök, nutu niðurgreiðslna frá Seðlabanka Íslands fram að 1990. 

„Eftir 1990 fengu gömlu sölusamtökin ekki lengur niðurgreiðslu og reyndu að bregðast við með sameiningum og alþjóðavæðingu. Rekstur Icelandic Group gekk þó aldrei upp. Félagið lenti í rekstrarvandræðum á árunum fyrir hrun eftir mikinn yfirtökumóð, meðal annars vegna skorts á samlegðaráhrifum milli rekstrareininga og kostnaðarsams móðurfélags. Það var hárrétt ákvörðun að búta fyrirtækið niður og selja það í einingum, annars hefði verið taprekstur áfram. En hefði sjóðurinn gert það strax í byrjun hefði FSÍ líklega getað lokið starfi sínu fyrr og fengið hærri ávöxtun,“ segir Ásgeir.

FSÍ sætti nokkurri gagnrýni á líftíma sínum. Ásgeir telur árangur sjóðsins meðal annars helgast af því hvað hann gerði ekki.

„Stjórn FSÍ beygði sig ekki undir gagnrýni eða pólitískan þrýsting og lét verkin tala. Það var aðeins mögulegt af því hún var sjálfstæð.“ Sem dæmi nefnir Ásgeir að sjóðurinn hafi sýnt sjálfstæði sitt með því að selja Icelandic Group í hlutum, þrátt fyrir verulega andstöðu, og taka ekki þátt í álkaplaverksmiðjunni á Seyðisfirði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.