Aðalhagfræðingur Englandsbanka (e. Bank of England), Andy Haldane, telur að mistök hagfræðinga, sem sáu ekki fyrir efnahagshrunið 2008-2009, sé hægt að líkja við mistök veðurfréttamannsins Michael Fish. Í frétt BBC er fjallað um framsögu Haldane á fundi í London sem fór fram í morgun.

Frægt er þegar Fish sagði í útsendingu á BBC að það yrði ekki fárviðri í Bretlandi dag einn árið 1987 og gerði lítið úr orðum hlustanda sem hringdi inn til stöðvarinnar. Haldane líkti hugarfari hagfræðinga fyrir hrun við hugarfar veðurfréttamannsins og sagði stéttina enn vera í nokkurs konar krísu, í kjölfar hrunsins og Brexit atkvæðagreiðslunnar.

Jafnframt þvertekur Englandsbanki fyrir það að hafa vísvitandi skrifað neikvæðar skýrslur til þess að styðja áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu.

Yfirsýn í hruninu

Hann tók jafnframt fram að líkön hagfræðinga í dag séu í dag orðin „brothætt“ en hafi verið góð á meðan vel gekk efnahagslega. Hins vegar hafi heimur hagfræðinga snúist á haus í kjölfar efnahagsáfallsins.

„Gætum við fundið leið út úr hugsunargildrunni? Að sjálfsögðu gætum við það. Við þurfum að leita til annarrar krísu, þ.e. krísu veðurfréttarmanns, sem að spáði rangt fyrir um storminn árið 1987. Munið þið eftir Michael Fish: Það er enginn stormur á leiðinni, en það verður vindasamt á Spáni,“ sagði Haldane á fundinum. Hann benti á að svipaðar skýrslur seðlabanka hafi verið gefnar út. Það voru ónákvæmar skýrslur að hans mati. „Það er enginn stormur, en það gæti reynst vindasamt í undirmálalánageiranum.“

Síðan þá segir Haldane að veðurfréttamenn hafi tekið sig á og bætt spár sínar. Hann segir að hagfræðingar gætu tekið þetta til sín og bætt spár sínar.