Ákvæði í hliðarsamningi við Icesave-samning veldur því að Íslendingar þurfa að greiða 340 milljörðum króna meira vegna Icesave en þeim ber samkvæmt íslenskum lögum. Þetta kemur fram í grein Einars Sigurðssonar bankamanns sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Greinin byggist á áliti sem hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Hörður F. Harðarson hafa unnið fyrir Einar og á tilteknum forsendum um endurheimtur og dreifingu innstæðna.

Ekkert mundi falla á íslenska ríkið vegna breskra innstæðueigenda

Í greininni er meðal annars gengið út frá þeirri forsendu að allar eignir Landsbankans væru seldar strax með afföllum þannig að 60% fengist upp í forgangskröfur, sem séu að mestu erlendir innstæðueigendur. Samkvæmt því er niðurstaðan sú að ekkert mundi falla á íslenska tryggingasjóðinn vegna breskra innstæðna en um 60 milljarðar króna vegna hollenskra innstæðna. Í þessum útreikningum er að sögn Einars tekið tillit til íslensku neyðarlaganna sem sett voru sl. haust.

Aðeins þörf á að breyta hliðarsamkomulagi

Í greininni kemur fram að vegna hliðarsamkomulags við Icesave-samninginn, sem gert hafi verið við Breta og Hollendinga, lendi ekki þessir 60 milljarðar króna á Íslandi heldur um 400 milljarðar króna. Samkomulagið hafi gert kröfur Íslendinga, Breta og Hollendinga jafnsettar gagnvart þrotabúinu, sem hafi þessar afleiðingar fyrir endurheimt íslenska tryggingastjóðsins, sem að íslenskum lögum eigi forgangskröfu.

Einar segir að til að laga þetta þurfi ekki að breyta Icesave-samningnum, þó svo hann telji að það væri æskilegt, „heldur eingöngu einstöku ákvæði í hliðarsamkomulagi þar sem gerð voru stórkostleg mistök sem byggðust ekki á íslenskum lögum“.