Hreyfimynda- og margmiðlunarfyrirtækið Miðstræti hefur flutt starfsemi sína að Garðastræti 38.

Í fréttatilkynningu kemur fram að markmiðið með flutningunum er að efla starfsemina, t.a.m. með aukinni samvinnu við systurfyrirtækin auglýsingastofuna Fíton og Auglýsingamiðlun, sem sérhæfir sig í birtingaráðgjöf og rannsóknum.

Þótt rekstur fyrirtækjanna þriggja sé sjálfstæður vænta stjórnendur þeirra mikils af auknu samstarfi í Garðastrætinu.

Miðstræti sérhæfir sig í tölvuvinnslu og hreyfigrafík sem setur punktinn yfir i-ið í sjónvarpsefni, einkum auglýsingum, auk fjölbreytts kynningarefnis sem birtist á internetinu.

Miðstræti á meðal annars heiðurinn af ævintýrum BT músarinnar sem allir landsmenn þekkja en sjá má brot úr verkum hinna hugmyndaríku starfsmanna fyrirtækisins á midstraeti.is