Tveir dómar Landsréttar í málum er varða vátryggingarétt verða teknir fyrir af Hæstarétti. Málin tvö varða bæði deilu um ábyrgð vinnuveitanda á tjóni starfsmanna sem þeir verða við vinnu sína. Dómarnir voru kveðnir upp með viku millibili en féllu þrátt fyrir það sitt á hvað.

Fyrri dómurinn féll í Landsrétti í lok nóvember. Þar hafði einstaklingur fallið úr stiga niður á steinsteypt gólf. Í héraði var fallist á bótaskyldu vinnuveitanda hans þar sem hann hefði látið undir höfuð leggjast að rannsaka slysið.

Landsréttur klofnaði aftur á móti í málinu. Meirihluti dómsins taldi á móti að ósannað að vélbúnaður vinnuvélar hefði verið ástæðan fyrir tjóninu. Tjónþoli hefði ekki lýst því yfir fyrr en ári eftir slysið að tækið hefði verið gallað og engin gögn styddu þá fullyrðingu. Vinnuveitandi mannsins hefði tilkynnt slysið til lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins og gæti ekki borið ábyrgð á því að eftirlitið hefði ekki mætt á staðinn. Eiríkur Jónsson, áður prófessor í skaðabótarétti, skilaði sératkvæði og taldi rétt að fallast á kröfu tjónþola um bætur.

Hinn dómurinn var kveðinn upp viku síðar. Þar krafði starfsmaður tannlæknastofu tryggingafélag stofunnar um bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir er skápur féll ofan á hana. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfu konunnar um bætur. Í málinu lá fyrir að Vinnueftirlitinu hafði ekki verið tilkynnt um slysið en lögregla var látin vita og boði komið þaðan til eftirlitsins. Það kom hins vegar aldrei til að rannsaka vettvang.

Í áfrýjunarbeiðni tryggingafélags konunnar kom fram að félagið teldi að dómur í málinu gæti haft verulegt fordæmisgildi varðandi samskipti atvinnurekanda og Vinnueftirlits ríkisins. Þá var einnig vísað til fyrra málsins og bent á það að dómar Landsréttar hefðu þarna fallið þvers og kruss á einni viku.

Að mati Hæstaréttar geta málin haft fordæmisgildi um atriði sem beiðnirnar eru reistar á. Var því fallist á að taka málin fyrir.