Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup sem gerður var 3. nóvember til 2. desember hefur fylgi flokkanna á Alþingi lítið breyst, en samkvæmt könnun Fréttablaðsins sem tekin var í gær og fyrradag, er Miðflokkurinn fallinn af þingi.

Þar gæti haft áhrif leynilegar upptökur af spjalli nokkurra þingmanna flokksins og Flokks fólksins, sem nú hefur verið vikið úr þeim flokki, af veitingastaðnum Klaustrinum sem birtar voru miðvikudagskvöldið 28. nóvember síðastliðinn, en Viðskiptablaðið hefur greint frá afsökunarbeiðnum viðkomandi þingmanna vegna orðræðu sinnar þar.

Samkvæmt báðum könnunum mælist Sjálfstæðisflokkur stærstur, með 23,5% samkvæmt Gallup en 21,4% samkvæmt Fréttablaðinu og Samfylkingin er næst stærst með 18,7% samkvæmt Gallup og 20,8% samkvæmt Fréttablaðinu.

Þar á eftir kemur áðurnefndur Miðflokkur með 12,0% sem er svipað fylgi og þeir hafa verið með, í könnun Gallup, en samkvæmt Fréttablaðinu fá þeir einungis 4,3% sem ekki dugir til að á inn manni. Í dag er flokkurinn með sjö þingmenn.

Bæði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segja það ekki koma óvart að einhver viðbrögð verði um umræðuna í fylgi flokkanna nú að því er fram kemur í tengslum við könnum Fréttablaðsins.

„Þetta endurspeglar væntanlega afstöðu fólks til þessa máls sem hefur komið fram að undanförnu,“ segir Logi sem er vonum ánægður með niðurstöðu síns flokks. „En ég er auðvitað meðvitaður um það að þetta er könnun og hún gerð á sérkennilegum tíma.“

Niðurstöður flokkanna er sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkur: Gallup-23,5% Fréttablaðið-21,4% (15 þingsæti) kosningar 2017-25,2% (16 þingsæti).
  • Samfylkingin: Gallup-18,7% Fréttablaðið-20,8% (15 þingsæti) kosningar 2017-12,1% (7 þingsæti)
  • Miðflokkurinn: Gallup-12,0% Fréttablaðið-4,3% (0 þingsæti) kosningar 2017-10,9% (7 þingsæti)
  • Vinstrigræn: Gallup-10,5% Fréttablaðið-12,7% (8 þingsæti) kosningar 2017-16,9% (11 þingsæti)
  • Píratar: Gallup-10,2% Fréttablaðið-14,4% (10 þingsæti) kosningar 2017-9,2% (6 þingsæti)
  • Viðreisn: Gallup-9,8% Fréttablaðið-9,1% (6 þingsæti) kosningar 2017-6,7% (4 þingsæti)
  • Framsóknarflokkurinn: Gallup-7,5% Fréttablaðið-8,5% (6 þingsæti) kosningar 2017-10,7% (8 þingsæti)
  • Flokkur fólksins: Gallup-6,2% Fréttablaðið-5,7% (3 þingmenn) kosningar 2017-6,9% (4 þingmenn-ath tveir þeirra sitja enn í þingflokknum)